Tónlist og leiklist á Græna hattinum um páskana

Það verður mikið um að vera á Græna hattinum um páskana og strax í kvöld verða Hvanndalsbræður þar með 5 ára afmælistónleika. Fimm ár eru frá því að þeir stigu á stokk klæddir lopapeysum og ullarhöttum og það mættu 20 manns, flestir tengdir þeim á einhvern hátt en einhverjir fyrir forvitnissakir, og orðsporið breiddist út, næst komu 50 þá 100 og síðan hefur verið uppselt. Nú ætla þeir félagar að vera tvö kvöld, einnig annað kvöld og boða óborganlega stemningu. Tónleikarnir hefjast kl. 21.30 og verður húsið opnað kl.20.30. Á föstudaginn langa er það leiksýningin Pabbinn. Bjarni Haukur Þórsson fer á kostum í hlutverki pabbans í einni fyndnustu sýningu seinni ára. Leikstjóri er Sigurður Sigurjónsson. Sýningin hefst kl. 20.00 og húsið verður opnað kl.19.00. Þess má geta að Ellen Kristjánsdóttir átti að vera þetta kvöld en forfallaðist en hún mun koma fljótlega. Ljótu hálfvitarnir mæta til leiks á laugardagskvöld en þessi bráðskemmtilega hljómsveit sló svo eftirminnilega í gegn á síðasta ári og seldist upp í forsölu þegar hún skemmti á staðnum fyrst. Tónleikarnir hefjast kl. 21.30 og húsið opnað kl. 20.30. Á sunnudagskvöld verður Echoes, Pink Floyd tribute þar sem hljómsveitin Echoes flytur perlur Pink Floyd af Dark side of the moon, Wish you were here og The Wall. Þeir hafa hlotið gríðarlega góðar viðtökur fyrir þennan flutning. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 og húsið opnað kl. 20.00.

Nýjast