Ásdís Arnardóttir lauk meistaragráðu í sellóleik frá Boston University 1995 þar sem aðalkennari hennar var George Neikrug. Frá haustinu 1995 var Ásdís sellókennari við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og frá 2003 kenndi hún einnig við Suzukitónlistarskólann í Reykjavík. Frá 1997-2000 var hún með fastan samning hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einnig hefur hún leikið með Íslensku óperunni og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ásamt því að taka þátt í flutningi kammertónlistar víðs vegar um Ísland. Hún starfar nú sem sellókennari við Tónlistarskólann á Akureyri.
Aladár Rácz er fæddur í Rúmeníu árið 1967. Hann stundaði fyrst nám í píanóleik við Georges Enescu tónlistarskólann í Búkarest en síðan framhaldsnám við tónlistarháskólana í Búkarest og Búdapest. Einnig hefur Aladár tekið þátt í mörgum námskeiðum í Evrópu og sjálfur haldið masterclassnámskeið fyrir píanónemendur. Hann hefur leikið á tónleikum víðs vegar um heiminn, hljóðritað plötur og unnið til verðlauna fyrir píanóleik í alþjóðakeppnum, m.a. á Spáni, Ítalíu og í Tékklandi. Frá árinu 1999 hefur Aladár starfað sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Húsavíkur, leikið með ýmsum kórum og söngvurum á Norður- og Austurlandi svo sem Leikhúskórnum á Akureyri og Kammerkór Austurlands. Einnig má nefna að Aladár hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í píanókonsert nr. 1 eftir Ludwig van Beethoven. Þá fékk Aladár Rácz frábæra dóma fyrir flutning sinn á Goldberg-tilbrigðum Johanns Sebastians Bachs sem hann flutti bæði í Salnum í Kópavogi og Ketilhúsinu á Akureyri.