Í vor fagnar Impra 10 ára afmæli Brautargengis en í heild hafa um 700 konur útskrifast frá því Brautargengisnámskeiðin hófust í Reykjavík. Á Akureyri lauk níunda Brautargengisnámskeiðinu með útskrift tólf kvenna á dögunum. Útskriftarhópurinn var sérlega glæsilegur og býr yfir mikilli starfsreynslu og menntun. Meðal hópsins eru leiðsögumenn, tölvunarfræðingar, hönnuðir, konur úr heilbrigðisgeiranum, snyrtifræðingar og hágreiðslukonur svo eitthvað sé nefnt. Hvatningarviðurkenningu Brautargengis á Akureyri fékk Hafdís Sverrisdóttir fyrir viðskiptaáætlun um Kofann, skólagæslu á Dalvík. Hafdís fór í haust skipulega í gegnum hvaða möguleika hún gæti nýtt inn í sinn rekstur og setti fram hnitmiðaða og skýra viðskiptaáætlun. Þessi vinna á án efa eftir að skila sér vel inn í fyrirtækið og verða til þess að efla starfsemi þess á Dalvík. Viðurkenningu fyrir bestu viðskiptahugmyndina fengu Dóróthea Jónsdóttir og Jónína Hjaltadóttir. Verkefni þeirra, Amma Djó, veitingar og handverk, er unnið út frá tækifæri sem þær stallsystur sáu hér á markaðnum. Þær eru komnar með góðan grunn að verkefninu og verður áhugavert að sjá hvernig þjónustan verður þróuð.
Brautargengi er námskeið í gerð viðskiptaáætlana. Það er opið fyrir allar konur, hvort sem þær eru með hugmyndir sem þær vilja þróa og skoða nánar eða konur sem þegar eru í rekstri. Næsta Brautargengisnámskeið á Akureyri hefst í febrúar en nánari upplýsingar er að finna hjá Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.