02. maí, 2008 - 16:26
Fréttir
Í lok apríl útskrifuðust 10 nemendur af fyrsta áfanga verslunarfagnáms hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (Símey).
Verslunarfagnámið er starfstengt nám, sem skiptist í 510 kennslustunda skólanám og 340 klukkustunda vinnustaðanám í umsjón
sérstaks starfsþjálfa.
Námið er sérstaklega sniðið að starfandi verslunarfólki, sem sinnir almennum störfum í verslunum. Því er ætlað að auka
verslunarfærni og efla almenna og persónulega færni starfsfólks til að takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni í
nútímaverslun. Að námi loknu eiga starfsmenn að hafa faglegar forsendur til að taka á sig aukna ábyrgð og verkefnisstjórnun á
ýmsum sviðum verslunar. Menntamálaráðuneytið hefur samþykkt að meta verslunarfagnámið til 51 framhaldsskólaeiningar.
Verslunarfagnámið er þrír áfangar og luku fyrstu nemarnir þriðja áfanganum í nóvember 2007 og urðu þar með þeir
fyrstu til að útskrifast úr náminu hjá Símey.
Á meðfylgjandi mynd eru nemarnir sem útskrifuðust úr fyrsta áfanga verslunarfagnámsins í apríl ásamt skólastjóra
sínum. Efri röð frá vinstri: Valgeir Magnússon Símey, Tryggvi Haraldsson Sandblástur og málmhúðun, Þórunn Helgadóttir
Bónus, Lára P. Jónsdóttir Hagkaup, Elísa J. Ásmundsdóttir Hagkaup, Guðni Hermannsson Straumrás, Adolf Þ. Andersen Tölvulistinn..
Neðri röð frá vinstri: Þóra Jónsdóttir Hagkaup, Eygló Sveinbjörnsdóttir Penninn Eymundsson, Aníta Stefánsdóttir
Hagkaup og Áslaug Kristjánsdóttir Hagkaup. - Mynd: Haraldur Bjarnason