09. mars, 2008 - 13:05
Fréttir
Meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar samþykkti á síðasta fundi sínum tillögu meirihluta skipulagsnefndar þess efnis að auglýsa að
nýju tillögu að deiliskipulagi akstursíþrótta- og skotfélags í Glerárdal, í ljósi breytinga og nýrra gagna. Tillaga
að deiliskipulagi svæðisins var auglýst í október sl., þar sem 37 athugasemdir bárust. Ekki eru allir á eitt sáttir við hugmyndir um
fyrirhugaða uppbyggingu. Á fundi um öryggis- og skipulagsmál sem Hestamannafélagið Léttir á Akureyri stóð fyrir nýverið var
skorað á bæjaryfirvöld að falla frá hugmyndum um skipulag á svæði í Glerárdal fyrir akstursíþróttir í
námunda við hesthúsahverfi Akureyrar þar sem þessi starfsemi fari ekki saman.
Í bókun skipulagsnefndar kemur fram að fyrir liggi ný umhverfisskýrsla unnin af Alta, Teiknum á lofti og Skipulagsdeild Akureyrarbæjar ásamt
yfirfarinni hljóðvistarskýrslu Línuhönnunar "Mat á áhrifum hljóðvistar - viðbætur." Í ljósi þess að
búið er að vinna nýja umhverfisskýrslu, yfirfara hljóðvistarskýrslu, leita formlegra umsagna og taka tillit til innsendra athugasemda eins og kostur er
telur meirihluti skipulagsnefndar eðlilegt að auglýsa deiliskipulagstillöguna að nýju. Þannig gefist almenningi gefist kostur á að rýna
endurbætt gögn um tillöguna og gera athugasemdir við hana að nýju ef svo ber við, segir ennfremur í bókun skipulagsnefndar.
Bæjarstjórn samþykkti tillögu skipulagsnefndar með 7 samhljóða atkvæðum. Elín Margrét Hallgrímsdóttir, Hjalti
Jón Sveinsson, Baldvin H. Sigurðsson og Kristín Sigfúsdóttir sátu hjá við afgreiðslu.