Hann segir yfirlýsingu bæjarstjóra hafa stuðað mannskapinn, enda hefðu menn talið að þeir ættu í viðræðum við bæinn um uppbyggingu á Akureyrarvelli og að fyrst hafi verið rætt á þeim nótum fyrir rúmum þremur árum. „Og það er langur tími. Næstbesta svarið við lóðaumleitunum okkar hefði verið nei. Þá hefðum við strax snúið okkur að leit að öðrum stað. Við höfum sýnt þolinmæði og mikla biðlund, enda ýmsar breytingar í gangi, kosningar, bæjarstjóraskipti og annað slíkt. Nú liggur niðurstaða greinilega fyrir en vissulega kom hún okkur á óvart. Við höfum hitt bæjarstjóra vegna þessa máls fjórum sinnum á þessu ári og það er ekki langt síðan við vorum beðnir um að nefna tölur í sambandi við Akureyrarvöllinn, hvað við værum að hugsa í því sambandi," segir Oddur.
Hann bendir á að Hagkaup sé með mikla starfsemi í bænum, þar vinni 60 til 80 manns, verslunin hafi starfað í bænum í 40 ár og stækkað og dafnað á þeim tíma. Vilji sé til þess að auka sérvöru í versluninni og því brýnt að hún fái aukið húsnæði.