Þrjú fræðasvið viðurkennd við Háskólann á Akureyri

Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, afhenti Háskólanum á Akureyri viðurkenningu vegna fræðasviða við athöfn í Þjóðmenningarhúsi nýlega.  Viðurkenningarnar eru byggðar á áliti alþjóðlegra sérfræðinefnda sem fóru yfir starfsemi háskólans og skiluðu ýtarlegum skýrslum um hana.  Niðurstöður sérfræðinefndanna eru jákvæðar og mæltu þær einróma með að háskólinn öðlaðist viðurkenningu á fræðasviðum auðlindavísinda, félagsvísinda og heilbrigðisvísinda.  Hér á eftir fer samantekt úr niðurstöðum nefndanna.

Auðlindavísindi

Nefndin um auðlindavísindi telur að kennsla og rannsóknir í auðlindavísindum snúist um málefni sem miklu skipta fyrir nánasta umhverfi og landsfjórðung háskólans, enda þótt samstarf á landsvísu sem og á alþjóðavettvangi sé einnig veigamikill þáttur. Bent er á að vandlega skuli huga að þætti hinnar alþjóðlegu starfsemi í áætlunum háskólans og nýta ætti sem allra best þau færi sem gefast til samstarfs á alþjóðlegum vettvangi til að styrkja fræðilega þekkingu innan háskólans og vekja athygli á honum erlendis. Jafnframt gefist ágætt tækifæri til að tengja rannsóknastofnanir með formlegri hætti við meginmarkmið háskólans vegna nálægðar slíkra stofnana við hann.

Félagsvísindi

Nefndin um félagsvísindi fullyrðir að kennslu og rannsóknum í félagsvísindum hafi fleygt fram í Háskólanum á Akureyri á tiltölulega skömmum tíma og að stjórnendur, starfsfólk og nemendur skólans vinni af krafti við að efla háskólann enn frekar.  Jafnframt kemur fram að háskólinn eigi skilið viðurkenningu fyrir þá aðstöðu til fjarkennslu sem byggð hefur verið upp sérstaklega sú stefna að vinna náið með símenntunarmiðstöðvum um land allt. Sömuleiðis er í samantekt skýrslunnar vakin jákvæð athygli á aðferðum við þróun náms og virkum samskiptum við aðra háskóla, bæði innlenda og erlenda.

Heilbrigðisvísindi

Nefndin um heilbrigðisvísindi gefur heilbrigðisvísindum mjög jákvæða umsögn. Starf kennara og framlag nemenda fær mjög góða dóma. Samstarfi nemenda og starfsmanna er hælt og vakin athygli á þeirri staðreynd að smæð háskólans auðveldi jákvæð og gjöful tengsl á milli þessara aðila. Fjarkennslan, sem boðið hefur verið upp á í hjúkrunarfræði um árabil, fær jákvæða umsögn ekki síst fyrir það að mæta brýnni þörf fyrir menntun hjúkrunarfræðinga í hinum dreifðu byggðum landsins.

Allar nefndirnar lögðu fram ýmsar gagnlegar ábendingar um starfsemi Háskólans á Akureyri og hefur þegar verið brugðist við þeim. Viðurkenningarferlið hefur eflt háskólann og styrkt starfsfólk hans í þeirri trú að Háskólinn á Akureyri hefur náð miklum árangri og hefur mikilvægu hlutverki að gegna í framtíðinni.

Viðauki

Viðurkennd fræðasvið og fræðigreinar við Háskólann á Akureyri

Auðlindavísindi: líftækni, sjávarútvegsfræði, tölvunarfræði, umhverfis- og orkufræði og framhaldsnám í auðlindavísindum.

Félagsvísindi: Fjölmiðlafræði, grunnskólakennarafræði, kennsluréttindanám, leikskólakennarafræði, lögfræði, nútímafræði, samfélags- og hagþróunarfræði, sálfræði, viðskiptafræði, framhaldsnám í félagsvísinda- og lagadeild, kennaradeild og í viðskiptaskor.

Heilbrigðisvísindi: Hjúkrunarfræði, iðjuþjálfun og framhaldsnám.       

Nýjast