22. febrúar, 2008 - 13:53
Fréttir
Á fundi hreppsnefndar Arnarneshrepps í vikunni var kynnt erindi þess efnis frá Alþingi að hreppurinn hefði fengið úthlutað þremur
milljónum króna til til endurbyggingar á gömlu bryggjunni á Hjalteyri. Í bókun hreppsnefndar kemur fram að hún fagni innilega framlagi
fjárlaganefndar til þessarar endurbyggingar og var oddvita ásamt varaoddvita falið að koma framkvæmdinni af stað. Stefnt er að því að
vígja bryggjuna á sæludeginum í sveitinni 2. ágúst í sumar. Ekki hefur verið almennileg tenging á milli lands og gömlu bryggjunnar
á Hjalteyri en til stendur að byggja brú þar á milli í sumar, þannig gestir og gangandi geti farið þangað út, m.a. til að dorga.
Eins og fram hefur komið gerði aftaka veður á Hjalteyri fyrr í mánuðinum og fauk þá mestallt dekk gömlu bryggjunnar upp á land. Einnig
urðu miklar skemmdir á sjóvarnargörðum á Hjalteyri. Sjór flæddi á land og náði langt upp á húsveggi, m.a. þar sem
Fiskeldi Eyjafjarðar er til húsa, en ekki varð tjón þar eða á öðru húsnæði vegna þessa. Gríðarlegu magni af
spýtnabraki skolaði einnig á land, sem heimamenn hafa unnið að því að hreinsa. Axel Grettisson oddviti Arnarneshrepps sagði að til stæði
að nota um fjórðung af dekki gömlu bryggjunnar í þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er og hefði sá hluti sloppið hvað best í
óveðrinu á dögunum.