Skipulagsnefnd bendir m.a. á í svörum sínum við athugasemdunum, að syðsti hluti svæðisins hentar ekki starfsemi bifhjólasafnsins þar sem umrædd lóð er ekki nægilega stór samkvæmt fyrirliggjandi tillögu. Umrædd staðsetning er unnin í samráði við hagsmunaaðila og er um málamiðlun að ræða þar sem í upphafi var farið fram á aðra staðsetningu þ.e. á svæði Iðnaðarsafnsins. Í skilgreiningu á S svæðum í deiliskipulagstillögu er skýrt tekið fram að gert sé ráð fyrir stofnunum og fyrirtækjum sem tengjast safna- og sýningarstarfsemi annars vegar og náttúruvísindum, ræktun og umhverfismálum hins vegar. Einnig getur hluti svæðisins hentað fyrir félagastarfsemi. Tekið er tillit til að umferð á svæðinu verði takmörkuð við 30 km. Staðsetning byggingarreitsins gagnvart annarri starfsemi á svæðinu er valin þannig að bygging bifhjólasafnsins myndi hljóðskerm til vesturs og öll umferð innan lóðar verði því austan nýbyggingar. Ef í ljós kemur að þörf er á hljóðvörnum til viðbótar mætti koma þeim fyrir á norðurlóðarmörkum. Sækja skal um staðsetningu skilta á svæðinu til skipulagsdeildar sem afgreiðir slíkar umsóknir í samræmi við skiltareglugerð Akureyrarbæjar.
Tekið er undir sjónarmið að skerpa á texta í greinargerð að huga skuli að anda svæðis og nærliggjandi bygginga við hönnun húss. Skipulagsnefnd bendir jafnframt á að svæðið á Krókeyri er skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota og svæði fyrir þjónustustofnanir. Söfn eru ekki skilgreind sérstaklega í skipulagslögum og því tekur deiliskipulagið ekki sérstaklega á safnaskilgreiningu. Starfsemi sú sem fyrirhuguð er á reit S5 fellur innan þess ramma sem aðalskipulag heimilar og því tekur skipulagsnefnd ekki afstöðu til nánari greiningar innan safnageirans. Tekið er undir sjónarmið að heimilaðar verði góðar merkingar sem vísa til þeirrar starfsemi annarrar sem á svæðinu er.