Þrír bílar ónýtir eftir árekstur

Sautján ára stúlka slapp með skrekkinn þegar hún missti stjórn á bíl sínum á Eyrarlandsvegi á Akureyri í fljúgandi hálku skömmu fyrir hádegi í gær. Bíllinn rann inn á grasflöt, þar í gegnum trjágróður, fram af hálfs annars metra háum kanti og ofan á tvo mannlausa bíla við safnaðarheimili Akureyrarkirkju. Af þeim rann bíllinn áfram yfir bílastæði kirkjunnar og stefndi á bratta brekkkuna niður að húsum í Gilinu en á síðustu stundu hafnaði hann á steyptu blómakeri og nam staðar. Stúlkan slapp ómeidd en bílarnir þrír eru ónýtir að sögn lögreglu. Gríðarlega hálka var á götum Akureyrar í gærmorgun og fram eftir degi. Nokkrir minniháttar árekstrar urðu í bænum til viðbótar í gær og tvær bílveltur í firðinum. Bíll valt á Ólafsfjarðarvegi nálægt Möðruvöllum í Hörgárdal seinni partinn í gær og þá varð bílvelta í Svarfaðardal í gærkvöld.

Nýjast