Þrír á sjúkrahús eftir bílveltu á Borgarbraut

Mikil mildi þykir að ekki fór verr þegar bíll valt á Borgarbraut á Akureyri nú í hádeginu og hafnaði á toppnum á gangstéttinni til hliðar við götuna. Allir sem í bílnum voru, ökumaður og tveir farþegar, voru fluttir með sjúkrabíl á slysadeild FSA til aðhlynningar.

Ökumaður og annar farþeginn köstuðust út úr bílnum. Ekki fengust upplýsingar um meiðsli þeirra sem í bílnum voru nú fyrir stundu en þeir þykja þó hafa sloppið ótrúlega vel miðað við aðstæður og bíllinn er gjörónýtur. Bíllinn sem var að koma niður Borgarbraut rakst utan í ljósastaur, hafnaði svo á öðrum ljósastaur neðar og braut hann, kastaðist yfir gangstéttina á steinvegg og hafnaði svo á toppnum á gangstéttinni. Nokkur umferð gangandi fólks er jafnan meðfram Borgarbrautinni en ekki voru gangandi vegfarendur á þessum stað þegar óhappið varð.

Nýjast