Þrífst jafnaðarkaup á Akureyri?
Ég hef með greinum í Morgunblaðinu vakið athygli á framkomu eigenda Lawboski Bar í Reykjavík gagnvart dóttur minni. Hún krafðist kjarasamningsbundinni launa og var rekin. Hún sætti sig ekki við laun undir kjarasamningi og réttindabrot. Í kjölfar umfjöllunar um málaflokkinn velti ég fyrir mér hvort slíkar jafnaðarlaunagreiðslur þrífist í fyrirtækjum á Akureyri. Bærinn er smár og margt fréttist. Sjálf hef ég heyrt að nokkrir staðir greiði jafnaðarlaun án þess að hafa kannað það sérstaklega.
Með það í huga koma verkalýðsfélögin upp í huga minn. Með smæð bæjarins ætti að vera auðvelt að útrýma jafnaðarlaunum sem standast ekki kjarasamningi. Hvað gera verkalýðsfélögin hér í bæ til að rannsaka og kanna hvernig þessu er háttað?
Fyrir fáeinum árum stóð systir mín í stappi, fyrir hönd dóttur sinnar, við eigengur veitingastaðs á Akureyri vegna of lágra launagreiðslna í formi jafnaðarkaups. Þá sýndu forkólfar verkalýðsfélagsins máttleysi sitt, sögðust hafa talað við eigendur, sem lofuðu bót og betrun, og í raun gætu þeir ekkert meira gert. Hjálpin, sem nauðsynleg er til að fólk sjái hag sinn í að segja frá ólöglegum launagreiðslum, kom ekki þarna. Ég hvet verkalýðsfélögin til að taka á málunum, þefa uppi fyrirtækin sem greiða jafnaðarlaun og láta vita hvert þeirra gerir það. Mér yrði mikill heiður af að sniðganga umrædd fyrirtæki.
Með smæð bæjarins í huga kemur líka skyldleiki, vinátta og greiði upp í huga minn. Er möguleiki á að þeir sem sinna verkalýðsmálum á smáum stöðum séu ragir við að ganga í málin vegna þess sem ég nefni hér á undan. Vangaveltur, ekki staðhæfing. Þegar við búum á smáum stað getur slíkt gerst. Atvinnurekandi gæti setið í bæjarstjórn og greiði hann jafnaðarkaup er kannski ekki gott að ,,abbast upp á hann. Pabbi er vinur eiganda og ekki gott að reka fleig í þá vináttu, tek heldur jafnaðarkaupið gæti eitthvert ungmennið hugsað. Greiði, atvinnurekandi tekur barn frændfólks í vinnu en á móti er jafnaðarkaup greitt og frá því segir maður ekki. Vonandi er hér einungis um mínar vangaveltur að ræða, ekki staðreyndir. Hef ekki í hyggju að kanna það, en hvet enn og aftur til frásagnar um vinnuveitendur sem greiða jafnaðarlaun og eru undir kjarasamningsbundnum lanum.
Rannsóknarblaðamennska er hverfandi. Væri dugur í fréttamönnum sýndu þeir málaflokknum áhuga og færu af stað. Margir eru fúsir til að segja frá og þar með kæmist skriða á málið.
Með samstöðu í samfélaginu, samræðu og umfjöllun væri hægt að taka betur á málaflokknum en nú er gert.
Helga Dögg Sverrisdóttir