Þórsarar hófu leikinn betur á Þróttarvelli og virkuðu mjög sprækir. Einar Sigþórsson skoraði af stuttu færi innan teigs, þegar fyrirgjöf Kristjáns Sigurólasonar rataði til hans í gegnum mikla þvögu.
Þórsarar voru eilítið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og fengu nokkur ágætis færi til að bæta við. Það langbesta fékk áðurnefndur Einar, hann slapp þá í gegnum vörn Þróttara, fór framhjá markverðinum en missti boltann aðeins til hliðar og skaut í stöngina úr frekar þröngu færi.
Ekki löngu síðar jöfnuðu Þróttarar. Markið kom eftir fyrirgjöf úr aukaspyrnu sem Árni Skaptason og varnarmenn Þórs misreiknuðu og aukaspyrnan rataði á Hauk Pál Sigurðsson sem skallaði í markið af markteig.
Í síðari hálfleik voru Þróttarar töluvert sterkari en Þórsarar voru beittir í skyndisóknum sínum. Í upphafi hálfleiksins skoraði Einar Sigþórsson hins vegar aftur mjög keimlíkt mark og hann hafði gert áður í leiknum og kom Þórsurum í 2-1.
Þróttarar hófu nú mikla pressu að marki Þórsara og oftar en ekki skall hurð nærri hælum. Meðal annars skutu Þróttarar bæði í stöng og slá, auk þess Árni Skaptason greip stundum vel inni í marki Þórs. Hinu megin fékk Ármann Ævarsson dauðafæri einn gegn markmanni en skaut framhjá.
Undir lokin þegar sigurinn virtist vera að lenda Þórsmegin, skoruðu Þróttarar með skalla úr vítateignum, var þar að verki gamla kempan Þórhallur Hinriksson. Leikmenn Þróttar ærðust úr fögnuðu en Þórsarar voru vonum svekktir.
Lokatölur urðu 2-2, í leik sem Þórsarar geta verið mjög sáttir með, þeir voru hins vegar óheppnir að taka ekki öll þrjú stigin sem svo sannarlega hefði verið kærkomið fyrir þá.