29. janúar, 2008 - 12:24
Fréttir
Vegna mikillar eftirspurnar hefur verið ákveðið að endurtaka baðstofukvöldið í gamla bænum í Laufási. Þór Sigurðarson,
safnvörður á Minjasafninu á Akureyri, mun fimmtudagskvöldið 31. janúar kl 20:00 leiða gesti frá bæjardyrunum inn göngin og segja
frá fyrirburðum sem urðu í bæjargöngum áður fyrr. Leiðin endar í baðstofunni þar sem baðstofustemningin verður endurvakin.
Takmarkað ljós, fólk sitjandi á rúmum eftir að hafa gengið um löng göng milli baðstofu og útidyra og hlustar andaktugt á
það sem sögumaður segir.
Draugasögur voru oft og tíðum sagðar í baðstofum þegar fólkið safnaðist saman að kvöldi eftir verk dagsins. Á
fimmtudagskvöldið mun Þór segja þjóðlegar draugasögur sem gerðust innan torfbæja þar sem gjarnan mátti finna löng göng og
rangala, en þar gat ýmislegt leynst í hverju skúmaskoti. Þjóðlegar draugasögur fjalla m.a. um villudrauga, uppvakninga, ættarfylgjur og svipi.
Draugar voru allt frá því að vera hættulegir draugar sem drápu menn og upp í það að vera svipir sem sýndu sig og gerðu ekki
nokkrum mein. Algengastar voru fylgjurnar. Hver man ekki eftir sögum eins og þeirri um Þorgeirsbola sem mikið var á ferðinni í nágrenni
Laufásbæjar í Grýtubakkahreppi?
Kaffi eða kakó ásamt hjónabandssælu verður hægt að kaupa gegn vægu gjaldi í Gamla prestshúsinu áður en lagt verður
af stað heim aftur. Takmarkað sætarými er í baðstofunni og er fólk því hvatt til þess að panta sér sæti eftir kl 17.00
í dag, þriðjudaginn 29. og á morgun, miðvikudaginn 30. janúar í síma 463 3104. Síðast komust færri að en vildu. Aðgangseyrir
er 500 krónur.