Ívar Hrafn Baldursson er lítill drengur sem glímt hefur við erfið veikindi frá fæðingu en hann greindist með gallgangnarýrð (biliary atresia) sem lýsir sér í því að það er lítil sem engin tenging úr lifur niður í þarmana. Vegna þessa hefur drengurinn verið inn og út af sjúkrahúsum og í haust má gera ráð fyrir að hann þurfi að dvelja í Gautaborg í Svíþjóð, jafnvel mánuðum saman eða þar til hann hefur fengið grædda í sig nýja lifur. Skarpur settist niður með foreldrum hans, Lindu Birgisdóttur og Baldri Kristinssyni á dögunum og hlýddi á raunasögu þeirra. Viðtalið mun birtast í tveimur hlutum í prentútgáfu Skarps.
Við gripum niður í viðtalið þar sem Linda og Baldur segja frá því þegar fyrst vöknuðu grunsemdir um að eitthvað alvarlegt væri að drengnum þeirra. Áður hafði verið talið að Ívar Hrafn væri með hefðbundna nýburagulu.
Af einhverjum orsökum seinkaði 9. vikna skoðun án þess að þau foreldrarnir hafi gert athugasemd við það. „Helgina eftir það er afmælis veisla hjá systur Lindu og við förum með drenginn þangað. Þar hittum við svilkonu mína sem er hjúkrunarfræðingur á Akureyri. Þarna er Ívar Hrafn orðinn nærri því sjálflýsandi á litinn, og þá segir svilkona mín okkur að þetta sé ekki eðlilegt, þetta verðum við að láta skoða. Við hringjum strax í vaktlækni hérna á Húsavík og hann segir okkur að koma daginn eftir, á sunnudeginum, vegna þess að hann vildi sjá hann í dagsbirtu. Hann vildi líka fá annan lækni til að skoða drenginn með sér. Þeir voru báðir sammála um að þetta væri ekki eðlilegt og vildu fá blóðprufur daginn eftir (á mánudagsmorgni). Daginn eftir förum við grandalaus um allt, nema að barnið okkar var skrýtið á litinn. Við fórum fyrst upp á spítala á Húsavík en okkur langaði helst strax á Akureyri þar sem hjúkrunarfræðingarnir þar eru reyndari þegar kemur að því að stinga svona lítil börn. Ég hringdi þangað og útskýrði stöðuna og okkur var sagt að koma á bráðamóttökuna á Akureyri. Það gekk vel að taka úr honum blóð og síðan vorum við lögð inn þar,” útskýrir Baldur og Linda heldur áfram: „Barnalæknirinn þar segir strax við okkur að það besta mögulega í stöðunni sé að um stíflur væri að ræða sem eiga eftir að að losna, s.s. gallsteinar. En það versta í stöðunni væri að við þyrftum að fara til Svíþjóðar með drenginn okkar í lifraskipti en segir samt strax en það sé ekki verið að vinna með það.” Þó að þessar upplýsingar hafi komið mjög flatt upp á Lindu og Baldur segir hún að eftir á sé hún fegin að læknirinn hafi lagt spilin á borðið með þessum hætti. „Þannig gat ég vonað það besta en verið búin undir það versta.“