Takmarka námsframboð vegna fjárskorts

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri.

Háskólaráð Háskólans á Akureyri lýsir yfir áhyggjum sínum með hlutdeild skólans í núverandi frumvarpi til fjárlaga 2015. Í ályktun segir að það skjóti skökku við, að á sama tíma og Háskólinn á Akureyri hafi uppfyllt allar opinberar gæðakröfur, sýnt mikla ráðdeild í rekstri og greitt upp að fullu hallarekstur fyrri ára, þá skuli skólinn ekki njóta þess þegar kemur að því að fjármagn sé aukið til háskólastigsins að nýju – en aukning á fjármunum til háskólanna allra er grundvöllurinn að auknum hagvexti í framtíðinni, eins og fram kemur í yfirlýsingu allra rektora háskóla á Íslandi í nóvember síðastliðnum.

Í ályktuninni segir ennfremur: „Háskólinn á Akureyri er með í dag rúmlega 100 nemendaígildi umfram fjárveitingar og allt stefnir í að sá munur aukist á næsta ári.  Án aukningar í fjárframlögum, umfram þá lágmarksaukningu sem komin er nú þegar vegna kostnaðarhækkana, er ljóst að takmarka verður aðgengi nemenda að námi á haustmisseri 2015 sem og takmarka námsframboð. Háskólaráð lýsir yfir furðu sinni á þeirri stöðu sem upp er komin, að takmarka verði aðgengi og námsframboð við stærsta háskóla landsins utan höfuðborgarsvæðisins (og þriðja stærsta háskóla landsins), á sama tíma og skólar á höfuðborgarsvæðinu fá greitt fyrir umframnemendur síðustu ára. Þykir þetta ganga í berhögg við stefnu núverandi ríkisstjórnar um eflingu allrar landsbyggðarinnar.

Þá er gengið gegn þeirri augljósu þörf á að auka menntun utan höfuðborgarsvæðisins sem fram kemur í frétt Hagstofunnar þar sem meðal annars er leitt í ljós að 24,7% íbúa dreifbýlisins á aldrinum 25- 64 ára hafi háskólamenntun á móti 42,3% íbúa í sama aldurshóp á höfuðborgarsvæðinu. Háskólinn á Akureyri hefur þjónað landinu öllu í gegnum öflugt fjarnám og unnið mikið brautryðjendastarf því sviði. Háskólaráð Háskólans á Akureyri beinir því til stjórnvalda, að endurskoða lokatillögur sínar um útdeilingu fjármuna til háskólastigsins, og að Háskólanum á Akureyri verði gert kleift að viðhalda þeirri stefnu, að bjóða landsmönnum öllum upp á öflugt fjarnám í sinni heimabyggð.

Það óréttlæti, sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 eins og það liggur fyrir í dag, hefur mælst illa fyrir víða í samfélaginu. Háskólaráð þakkar sérstaklega öllum þeim aðilum sem sýnt hafa skólanum stuðning í formi ályktana í baráttunni fyrir því að þessi misskipting, sem er með öllu óréttmæt, verði leiðrétt.“

 

Nýjast