08. nóvember, 2007 - 19:17
Fréttir
Konur í Zontaklúbbi Akureyrar hafa unnið sýningu um ævi og störf Jóns Sveinssonar - Nonna, í tilefni þess að 150 ár eru liðin frá fæðingu hans 16. nóvember nk. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri opnar sýninguna á Amtsbókasafninu á Akureyri laugardaginn 10. nóvember. Sýningin stendur út árið. Sýningin lýsir viðburðarríku lífshlaupi Nonna í máli og myndum. Þótt ótrúlegt megi virðast hefur ævisaga Nonna ekki verið rituð á íslensku, hér gefst því tækifæri til að kynnast betur þessum einstaka manni sem á sínum tíma var einn besti sendiherra Íslands. Jón Stefán Sveinsson, eða Nonni eins og hann var alltaf kallaður, kvaddi móður sína 12 ára gamall og hélt út í hinn stóra heim. Hann gekk í kaþólskan menntaskóla, gerðist jesúítaprestur og síðar viðfrægur barnabókahöfundur. Nonni skrifaði bækur sínar á þýsku en þær voru síðar þýddar á yfir 30 tungumál. Nonni hafði einstaka frásagnarhæfileika og hélt fyrirlestra víða um heim alls 5000 talsins. Áttræður fór hann í heimsreisu og dvaldi m.a. í Japan í eitt ár. Nonni lést árið 1944 í Köln þar sem hann er jarðsettur. Þýsk útgáfa sýningarinnar verður opnuð í Köln í Þýskalandi síðar í mánuðinum en þar á Nonni enn miklum vinsældum að fagna.