11. desember, 2007 - 11:26
Fréttir
Það sem af er árinu 2007 hafa dagar þar sem svifryk mælist yfir heilsuverndarmörkum á Akureyri verið 28 en hámarksfjöldi leyfilegra daga er 23 fyrir þetta ár. Akureyri er því þegar komið yfir „kvótann" hvað varðar svifryksdaga á árinu. Árið 2010 verður leyfilegur hámarksfjöldi kominn niður í sjö daga auk þess sem leyfilegt hámark ársmeðaltals verður lækkað mikið. Leyfilegur hámarksfjöldi daga svifryks yfir heilsuverndarmörkum var 29 dagar árið 2006. Ársmeðaltalið mældist 23% umfram leyfileg heilsuverndarmörk. Það skal þó tekið fram að mælingar féllu niður yfir sumarið vegna bilunar í mælitæki sem skekkir ársmeðaltalið að einhverju leyti og eru tölurnar yfir sumarið líklega ofáætlaðar. Aðspurður um málið sagði Helgi Már Pálsson hjá Akureyrarbæ að segja mætti að töluverður árangur hafi náðst í baráttunni við svifrykið þar sem komnir eru 28 dagar yfir mörkum nú í ár en á sama tíma í fyrra voru þeir 41. Helgi sagði einnig að Akureyrarbær ætti á næstunni von á nýju tæki í baráttunni við svifrykið.
Alfreð Schiöth heilbrigðisfulltrúi sagði mikilvægt að kortleggja betur svifryksvandann í Akureyrarbæ jafnhliða því að grípa til aðgerða. „Vandamálið er fjölþætt og horft er til þess að þrífa betur götur, fyrirbyggja að atvinnutæki óhreinki götur, nota rykbindiefni, bæta mengunarvarnir bíla, einnig má draga úr umferðarhraða, draga úr notkun nagladekkja, bæta slitþol gatna og fleira. Aðgerðir gegn svifryki er viðamikið samfélagslegt verkefni og snýr að ríki, sveit, fyrirtækjum og almenningi." Það þykir brýnt heilsufarsmál að draga úr svifryksmengun þar sem flest bendir til þess að svifryk í andrúmslofti, jafnvel í litlu magni, hafi slæm áhrif á heilsu manna. Til að mynda eru miklar aðgerðir gegn svifryki unnar í stærstu borgum Norðurlandanna og t.d. í Stokkhólmi er svifryk talið fækka lífdögum manna meira en umferðaslys í borginni að meðaltali.