Svarfdælskur Mars í Dalvíkurbyggð um helgina

Nú um helgina er haldin hátíð í Dalvíkurbyggð undir heitinu Svarfdælskur Mars. Hátíðin hefst í kvöld að Rimum með heimsmeistarakeppni í brús. Meðal atriða á morgun er málþing í safnaðarheimili Dalvíkurkirkju kl. 16.00 um stöðu og framtíð héraðsfréttablaða í tilefni af 30 ára afmæli Norðurslóðar. Frummælendur á málþinginu verða Gísli Einarsson, fréttamaður og fyrrverandi ritstjóri Skessuhorns, Bjarni Harðarson, alþingismaður og fyrrverandi ritstjóri og eigandi Sunnlenska fréttablaðsins, og Þuríður Jóhannsdóttir, lektor við KHÍ. Auk þeirra taka þátt í pallborði þau Hilda Jana Gísladóttir fréttamaður á RÚVAK og Jóhann Antonsson, annar af ritstjórum Norðurslóðar. Svarfdælski Marsinn er menningarhátíð þar sem ýmislegt er gert til gamans svo sem að keppa að heimsmeistaratitli í brús og dansa svarfdælskan mars. Fyrir þá sem ekki þekkja heimsmeistaramótið í brús þá fer þar fram keppni í spili sem nefnist brús. Spilið hefur lengi verið spilað í Svarfaðardalnum og er því viðeigandi að þar skuli fara fram árlega heimsmeistaramótið í þessu spili. Nýgræðingar ættu ekki að láta sig vanta en venjulega fer fram kennsla í spilinu svo að sem flestir geti tekið þátt. Annars er dagskráin þessi:

Föstudagur 14. mars

Kl. 20.30 BRÚS.

Heimsmeistaramót í brús að Rimum. Keppt verður um gullkambinn, farandgrip sem hlotnast heimsmeistara hverju sinni. Keppnin verður tvískipt að þessu sinni og nú keppt í at-brús í fyrsta skipti, auk hinnar hefðbundnu heimsmeistarakeppni. Þátttökugjald kr. 500.

Spilareglur á www.dalvik.is

Laugardagur 15. mars

Kl. 11.00 SÖGUGANGA.

Söguganga um Dalvík í fylgd Sveinbjörns Steingrímssonar. Lagt er af stað frá byggðasafninu Hvoli og þar verður kaffi í lok göngu. Byggðasafnið verður opið frá kl. 11.00 til kl. 14.00.

Kl. 14.00 TÓNLEIKAR.

Tónleikar í Dalvíkurkirkju, Bára Grímsdóttir og Chris Foster flytja efnið Funi. Kór Dalvíkurkirkju og Samkór Svarfdæla flytja lög eftir Báru eða í útsetningum hennar.

Frábær dagskrá sem enginn tónlistarunnandi má láta framhjá sér fara.

Kl. 16.00 MÁLÞING

Málþing í safnaðarheimili Dalvíkurkirkju um stöðu og framtíð héraðsfréttablaða í tilefni af 30 ára afmæli Norðurslóðar. Frummælendur verða:

Gísli Einarsson, fréttamaður og fyrrverandi ritstjóri Skessuhorns,

Bjarni Harðarson, alþingismaður og fyrrverandi ritstjóri og eigandi Sunnlenska fréttablaðsins og Þuríður Jóhannsdóttir lektor við KHÍ.

Auk þeirra taka Hilda Jana Gísladóttir fréttamaður á RúvAk og Jóhann Antonsson, annar af ritstjórum Norðurslóðar, þátt í pallborði.

Kl. 21.30 verður marsinn tekinn að Rimum. Stjórnandi marsins er að venju Ingunn Margrét Hallgrímsdóttir og hljómsveit hússins sér um tónlistina. Þátttaka í marsinum er ekki bara skemmtun heldur upplifun! Aðgangseyrir kr. 1000.

Nýjast