Dregið var í 32- liða úrslit VISA-bikarkeppni karla í hádeginu í dag. Bæði Akureyrarliðin drógust gegn liði úr Landsbankadeildinni. Þór mæta sjálfum Íslandsmeisturunum í Val og þar sem lið Þórs var dregið á undan upp úr pottinum fá þeir heimaleikjaréttinn. KA-menn mæta Breiðabliksmönnum á heimavelli Blika. Ljóst er að beggja liða bíður verðugt verkefni og gaman verður að fylgjast með rimmum þessara liða.
Dean Martin þjálfari KA liðsins er borubrattur fyrir leikinn. “Þetta verður erfiður leikur, en þetta eru ellefu menn á móti ellefu og það er allt hægt með réttu hugarfari,” sagði Dean. Það leggst mjög vel í Lárus Orra Sigurðsson þjálfara Þórs á fá Valsmenn í heimsókn. “Þetta er hörkulið sem við fáum og gaman að fá Íslandsmeistarana í heimsókn,” segir Lárus og hvetur fólk til að mæta á völlinn því það sé ekki á hverjum degi sem stórlið koma hingað til Akureyrar.
Leikirnir fara fram miðvikudaginn 18. júní og fimmtudaginn 19. júní.