Stóra myndin – Norðurþing í forystu

Soffía Gísladóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknar og félagshyggju í Norðurþingi
Soffía Gísladóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknar og félagshyggju í Norðurþingi

Soffía Gísladóttir skrifar

Norðurþing er stórt sveitarfélag, samtals 3.732 km² og öflugt samfélag þéttbýlis og dreifbýlis. Við í Framsókn og félagshyggju, X-B, viljum að Norðurþing verði leiðandi afl í þingeyskri samvinnu sveitarfélaga og til þess að það megi gerast verðum við að horfa á stóru myndina. Ef við ætlum að byggja upp heilbrigð samfélög með virkri þátttöku allra þá verðum við að bera virðingu fyrir fjölbreytni. Allir hafa eitthvað fram að færa og innst inni vilja allir vera virkir þátttakendur í samfélaginu með því að leggja sitt af mörkum.

Tryggja þarf samráð

„Ekkert um okkur, án okkar“ er gott að hafa sem mottó í víðtækri samvinnu og uppbyggingu sveitarfélagsins. Við þurfum að hafa alla með, bera jafna virðingu fyrir öllum, hvar sem þeir búa innan samfélagsins og sama hvaða hópi þeir tilheyra. Við sem sveitarstjórnarfólk eigum að hlusta á raddir íbúa og fá sjónarmið þeirra í málefnum sem þá varða. Það eru gríðarlega ólíkir hagsmunir innan svo fjölbreytts sveitarfélags sem Norðurþing er og því mikilvægt að virkja sem flesta til að tryggja sem víðtækast samráð og samtal við ákvarðanatöku og stefnumótun. Þetta viljum við í Framsókn og félagshyggju gera með því að endurskoða fyrirkomulag hverfisráða, stofna fjölmenningarráð og auka samráð við ungmenna- og öldungaráð. Við ætlum okkur að efla íbúalýðræði með reglubundnum íbúafundum og bjóða upp á reglulega viðtalstíma við kjörna fulltrúa.

Verðmætir innviðir

Í Norðurþingi eru verðmætir innviðir sem nýta mætti betur. Dettifossvegur er orðinn að heilsársvegi og skiptir sú framkvæmd verulegu máli hvað varðar framtíðaruppbyggingu á austursvæði sveitarfélagsins. Því miður hefur Dettifossvegur ekki fengið þá vetrarþjónustu sem þarf til þess að halda veginum opnum og stendur það samfélaginu fyrir þrifum. Við í Framsókn og félagshyggju munum beita okkur fyrir því að Dettifossvegur verði opinn allt árið um kring og tryggja þannig nýtingu á þessum mikilvæga innviði. Húsavíkurflugvöllur er annar verðmætur innviður sem við í Norðurþingi verðum að standa vörð um. Kynna þarf betur þau tækifæri sem liggja í beinu flugi til Húsavíkur og beina þeirri umferð sem leið á til Norðurþings um þessa gátt.

Nýsköpun og atvinnuuppbygging

Horfa þarf til stærðar og fjölbreytileika sveitarfélagsins við atvinnuuppbyggingu. Við ætlum okkur að sækja fram í frumkvöðla- og nýsköpunarstarfi með því að koma á fót sóknarsjóði til eflingar atvinnuuppbyggingar sérstaklega í dreifðum byggðum Norðurþings. Einnig viljum við stuðla að stóraukinni skógrækt og umhverfisfegrun í sveitarfélaginu meðal annars með því að bjóða fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum að taka svæði í fóstur.

Kæri kjósandi, við í Framsókn og félagshyggju, X-B, óskum eftir þínum stuðningi næstkomandi laugardag, 14. maí og við hvetjum alla til að fara á kjörstað og nýta kosningarétt sinn. Þannig höfum við áhrif.

Höfundur er Soffía Gísladóttir sem skipar 2. Sæti á lista Framsóknar og félagshyggju í Norðurþingi.


Athugasemdir

Nýjast