Stefnt að um 50 nýjum plássum fyrir smábáta í Sandgerðisbót

Til stendur að setja upp nýja flotbryggju í Sandgerðisbót í vor og á stefnuskrá Hafnasamlags Norðurlands er að innan tveggja ára verði búið að skapa aðstöðu fyrir um það bil 50 nýja smábáta til viðbótar þeim sem fyrir eru. Hörður Blöndal hafnarstjóri segir að eftirspurn eftir plássum í smábátahöfninni í Sandgerðisbót sé þó nokkur.  Nú eru á annað hundrað manns með aðstöðu þar fyrir báta sína.  Ný flotbryggja bætist svo við í apríl nk. og við hana verður pláss fyrir um 30 báta, „svo er það stefna að bæta aðstöðuna og fjölga plássum, við vonum að innan tveggja ára verði komin um 50 ný pláss í Bótinni," segir Hörður. Hann bætir við að smábátasjómönnum í bænum sé greinilega að fjölga. Þá væntir Hörður þess að Akureyrarbær sjái til þess að framkvæmdum sem eru á hans könnu og snúa að m.a. að gerð hreinsistöðvar á svæðinu verði lokið sem fyrst og að þeir sem þarna reki fyrirtæki og útgerð hafi metnað til að fegra umhverfið sem kostur er, „svo að þetta svæði verði okkur til sóma," segir Hörður.

Nýjast