Stefna að stórfelldri uppbyggingu í Hlíðarfjalli
Bæjarráð Akureyrar heimilaði á dögunum Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar að skoða þann möguleika til fullnustu að stofna félag í eigu bæði opinberra og einkaaðila með það markmið að stuðla að uppbyggingu í Hlíðarfjalli. Hlíðarfjall er stærsta skíðasvæðið á landinu og í augnablikinu vantar töluvert mikla uppbyggingu, segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson , framkvæmdastjóri AFE um málið.
Það er hægt að byggja upp stórt og mikið svæði og nýta til þess hæð fjallanna og legu svæðisins. Akkilesarhællinn er hinsvegar að aðstaðan hefur hingað til eingöngu verið til vetrarnotkunar. Hugmynd okkar gengur út á að hafa heilsársnotkun á svæðinu og skapa meðal annars möguleika fyrir fjallahjól og göngufólk auk ýmissa fleiri afþreyingarmöguleika, segir Þorvaldur. Hann talar einnig um möguleikana sem felast í nálægðinni við meginland Evrópu og að það sé sem dæmi einungis 2 og hálfur tími í flugi hingað frá Danmörku og Bretlandi.
Það sem við bendum á er að þetta er mjög stutt ferð frá útlöndum. Það ætti þess vegna að geta verið skynsamlegt og er jafnvel ódýrara til dæmis fyrir breska fjölskyldu að koma hingað á skíði og í verslunarleiðangur frekar en að fara í Alpana. Aðstæður séu vitanlega ekki endilega sambærilegar en fyrir þá sem eru ekki með gríðarlegar kröfur þá held ég að við getum gert þetta á frambærilegann hátt
Vilja fá útlendinga að málum
Þorvaldur segir að ef af þessum áformum verður þá myndu margir aðilar koma að málinu, þar með talið aðilar erlendis frá. Auðvitað þá væri Akureyrarbær stór hluthafi og hefði mikið um þetta að segja. Við viljum stofna félag sem er í eigu opinberra aðila og einkaaðila, sem að væri með það markmið að markaðssetja, hanna og kynna svæðið. Síðan kæmu að þessu fjárfestar og mögulega markaðsskrifstofur eins og AFE, Markaðsstofa Norðurlands og aðrir af því tagi. Svo viljum við auðvitað gjarnan fá hagsmunaraðila í ferðaþjónustunni til þess að leggja verkefninu lið, segir Þorvaldur.
Kláfur einn af möguleikunum
Í stuttu máli þá sér AFE uppbygginguna fyrir sér þannig að á svæðinu verði hótel, veitingarstaðir og aðrir gistimöguleikar. Þorvaldur segir að mögulega yrði boðið upp á að framleigja lóðir fyrir veitingarekstur, hóteluppbyggingu, skíðabústaði fyrir starfsmannafélög og annað slíkt. Einnig er ætlunin að byggja upp öflugara lyftukerfi og er kláfur upp á topp fjallsins hluti af þeirri hugmynd. Þar segir Þorvaldur að til staðar myndi vera nokkurskonar grunnbygging og mögulegt væri að bjóða upp á jöklagöngur yfir sumartímann á Vindheimajökul. Fyrir ofan göngubrautina yrði svo hannað svæði sem að byði upp á það að fara á fjallahjól eða í gönguferðir.
-IBG