Stærð íþróttahúss við væntanlegan Naustaskóla gagnrýnd

Á fundi stjórnar Fasteigna Akureyrar nýlega var tekið fyrir erindi frá Sigfúsi Karlssyni fyrir hönd stjórnar Unglingaráðs Handknattleiksdeildar KA, þar sem lýst er furðu yfir ákvörðun bæjaryfirvalda um stærð íþróttahúss við væntanlegan Naustaskóla. Ekki kemur þó fram hversu stórt íþróttahúsið á að vera. Miklar umræður urðu á sínum tíma um stærð íþróttahúss Síðuskóla en þar lögðu Þórsarar mikla áherslu á að húsið yrði byggt stærra en raun varð, þannig að þar yrði aðstaða fyrir áhorfendur. Einnig var á fundi stjórnar Fasteigna Akureyrarbæjar rætt um framtíðarnotkun íþróttahússins við Laugargötu og hugsanlega sölu á því. Það er mikið að gerast í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri og stjórn Fasteigna fjallaði einnig um uppbyggingu á knattspyrnu- og frjálsíþróttaaðstöðu á íþróttasvæði Þórs við Hamar og útboð og hönnun í tengslum við þær framkvæmdir. Einnig var rætt um útboð á búnaði í fimleikasal íþróttahúss við Giljaskóla. Þá var á fundi stjórnar Fasteigna tekið fyrir erindi, þar sem Sigurður Sveinn Sigurðsson f.h. byggingarnefndar Skautafélags Akureyrar, óskaði eftir umsögn um hugmynd að viðbyggingu, krulluhöll, austan við Skautahöllina. Stjórnin tók ekki afstöðu til málsins að svo komnu máli. Skipulagsnefnd hafði óskað eftir umsögn íþróttaráðs vegna hugmynda SA um byggingu krulluhallar við Skautahöllina. Í bókun íþróttaráðs kemur fram að samkvæmt gildandi forgangsröðun um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri sem lögð er fram af Íþróttabandalagi Akureyrar er ekki gert ráð fyrir byggingu krulluhallar og telur íþróttaráð því ekki tímabært að huga að slíkri framkvæmd fyrr en Íþróttabandalagið hefur lagt fram endurskoðaða forgangsröðun á haustdögum 2008.

Nýjast