31. janúar, 2008 - 11:12
Fréttir
Snjómoksturstæki eru fyrirferðarmikil á Akureyri þessa stundina enda leiðindaveður í bænum og færð á götum víða
þung. Það er því lítið spennandi að vera utan dyra en börnin á leikskólanum Hlíðabóli létu það ekki
á sig fá og voru mætt með skóflur í snjóskafla á lóðinni nú fyrir stundu og voru hin ánægðustu. Veðurstofan
hefur gefið út viðvörun líkt og Vegagerðin en búist er við stormi suðaustanlands fram eftir degi.
Samkvæmt veðurspá er gert ráð fyrir snjókomu á norðanverðu landinu, en að léttskýjað verði syðra og víða
skafrenningur. Það dregur úr vindi og ofankomu í dag en áfram dálítil snjókoma norðaustan til. Norðvestan 8-13 og bjart á morgun, en
él á Norður- og Austurlandi, frost 4 til 14 stig.