14. febrúar, 2008 - 19:15
Fréttir
Hurð skall nærri hælum í fjögurra bíla árekstri við Miklagil á norðanverðri Holtavörðuheiði um liðna helgi. Hjón
frá Akureyri voru á suðurleið þegar óhappið varð, en blindbylur skall á og mikið kóf var á vettvangi. Upphafið má rekja
til þess að bifreið var ekið utan í bíl hjónanna, jeppa af Hondugerð. Þau stöðvuðu úti í kanti og bjó
ökumaður sig undir að fara út í kófið að kanna skemmdir. Vildi þá svo illa til að aðvífandi bifreið á
norðurleið skall á bíl þeirra og varð af mikið högg, en líknarbelgir í bifreiðinni blésu upp og tóku það mesta af.
Forðuðu hjónin sér út úr bifreið sinni, ræddu við ökumann bílsins og biðu átekta í hríðinni um stund, en
konan ákvað svo að leita skjóls í illa förnum bílnum þar til mál skýrðust. Settist hún í aftursæti hans og
hafði ekki dvalið þar lengi þegar þriðji bíllinn skall á jeppa akureysku hjónanna. Á örskammri stundu upplifði konan
því þrjá árekstra í vonskuveðri á Holtavörðuheiði. Hún telur að mikið lán hafi verið yfir þeim
hjónum og einstök mildi að ekki fór verr. Hjónin er lemstruð, blá og marin, að líkindum rifbeinsbrotin og með brákuð bringubein en
ómeidd að öðru leyti. Bifreið þeirra er ónýt og ekki komust þau til útlanda svo sem áætlað var, en lagt var upp í
förina til að komast suður til Keflavíkur og þaðan til Englands.