01. febrúar, 2008 - 11:03
Fréttir
Bikarmóti Krulludeildar SA lauk nú í vikunni. Skytturnar fóru alla leið að þessu sinni og sigruðu Fífurnar í úrslitaleik, 7-4.
Tíu lið tóku þátt í mótinu sem leikið var með útsláttarfyrirkomulagi. Öll liðin eru úr röðum Krulludeildar
SA og var mótið nú haldið í fjórða sinn. Skytturnar hafa ekki áður orðið bikarmeistarar en nýjasti liðsmaður þeirra,
Árni Arason, hefur orðið bikarmeistari með öðru liði. Segja má að Árni hafi nánast fengið bikarinn í afmælisgjöf
því hann varð fimmtugur daginn eftir úrslitaleikinn. Í liðinu eru þau Ágúst Hilmarsson, Árni Arason, Birgitta Reinaldsdóttir,
Jón S. Hansen og Sigurgeir Haraldsson.
Keppt er um bikar sem gefinn var til minningar um Magnús E. Finnsson af fyrrverandi liðsfélögum hans í krullunni en Magnús starfaði um árabil í
SA, spilaði krullu og var formaður félagsins. Krullufólk heldur strax til keppni í nýju móti að loknu bikarmótinu því
mánudaginn 4. febrúar hefst Íslandsmótið. Ellefu lið eru skráð til leiks og eru þau öll úr röðum Krulludeildar SA. Tvö
undanfarin ár hefur farið fram undankeppni Íslandsmótsins bæði í Reykjavík og á Akureyri en nú í vetur liggur krulluiðkun
niðri syðra. Það eru því engin lið að sunnan með að þessu sinni. Engu að síður verður keppnin með svipuðu sniði og
tvö undanfarin ár. Liðin ellefu leika undankeppni sem hefst 4. febrúar og stendur til 7. apríl. Síðan komast fjögur efstu liðin í
úrslit sem fram fara helgina 11.-12. apríl.