Skipulagsslys á Moldhaugnahálsi
Ég vil með þessari grein vekja athygli íbúa Hörgársveitar og nærsveita á því mikla malarnámi sem á sér stað í Hörgársveit og þá sérstaklega þá miklu viðbót sem náman á Moldhaugnahálsi er. Það er sorglegt að horfa upp á þá miklu eyðileggingu á ásýnd sveitarfélagsins sem er að eiga sér stað á Moldhaugnahálsi en þetta hefur þegar skapað slæmt umtal. Námunni, sem blasir við úr nánast öllum áttum, hefði ekki geta verið fundinn verri staður hvað ásýnd varðar og er vinnsla þar rétt að byrja. Eftir er að taka gríðarlega mikið skarð inn í hálsinn og eins eru sterkar líkur á að á svæðinu verði mikið af gömlum ónýtum vinnutækjum sem í dag er að finna á svæði sem umrætt fyrirtæki hefur til umráða í Krossanesi og til stendur að flytja upp á námusvæðið á Moldhaugnaháls skv. skipulagi samþykktu af sveitarstjórn Hörgársveitar. Í dag blasir nú oft við rykmökkur og mikill hávaði úr grjótmulningsvélum sem berst vel víða um sveitarfélagið. Stundum bætast svo við miklir hvellir þegar verið er að sprengja bergið. Það er umhugsunarefni hvað fyrri sveitarstjórnir fengu mörg tækifæri til að aðhafast en kusu að gera það ekki. Sem dæmi má nefna:
-
Sveitarstjórn selur Skútaberg landið. Líklega ættu flestir að hafa getað gert sér grein fyrir hvað stóð til að gera með landið
-
Sveitarstjórn samþykkir skipulag sem gerir ráð fyrir miklu grjótnámi og vinnuvélasafni. Í lýsingu í skipulaginu er reynt að fegra ásýnd svæðisins með miklum mönum og byggingum sem hýsa vinnuvélasafnið. Ég dreg það verulega í efa að frágangur á umræddu svæði verði nokkurntíman í lagi, nefni til rökstuðnings ásýnd svæðisins í dag og eins ásýnd svæðis í Krossanesi sem umrætt fyrirtæki hefur til umráða
-
Sveitarstjórn kýs að notfæra sér ekki þá heimild sem til er samkvæmt lögum og setja þá kröfu á Skútaberg að þeir leggi fram tryggingu fyrir frágang á námusvæði þegar vinnslu lýkur. Þannig er ekkert sem tryggir að frágangur verði viðunandi
Það hlýtur að vera einsdæmi að sveitarstjórn beiti sér jafn lítið og raun ber vitni við upphaf á jafn umdeildri starfsemi og hér um ræðir. Hafa ber í huga að tekjur sveitarfélagsins af þessari starfsemi eru engar en sjónræn mengun gríðarleg. Ég á erfitt með að sjá hvar hagsmunir íbúa, sem sveitarfélagið sannarlega hefur tekjur af, eru í þessu. Hvernig menn fá það út að hagsmunum íbúa og sveitarfélags sé best varið með að koma þessu á er ráðgáta fyrir mér. Hörgársveit er fallegt sveitarfélag og það er skylda íbúa og sveitarfélags að sjá til þess að umhirða og viðhald sé til fyrirmyndar. Framlag sveitarfélagsins til þess hefur t.d. verið að leggja til ruslagáma og bjóða upp á að brotajárn og timur sé sótt heim á bæi og er það gott. Ég, sem útsvarsgreiðandi, greiði fyrir þá þjónustu með bros á vör. Það skýtur skökku við að á meðan íbúar borga fyrir þá þjónustu, þá er sveitarstjórn að greiða leið eins stærsta brotajárnshaugs á landinu upp á áberandi stað í sveitinni. Til viðmiðunar má nefna bílakirkjugarðinn við Ögurvík á Vestfjörðum, enda er hann orðinn landsfrægur og flestir sem keyra þessa leið í fyrsta skipti hneysklast á þessum sóðaskap, sem reynst hefur sveitarfélaginu erfitt að losna við.
Ég er ekki með þessu bréfi að tala gegn malarnámum. Í Hörgársveit er mikið af möl og hana ber að nýta, eins og dæmi sýna þar sem stórar og mikið nýttar námur eru nýttar af skynsemi. Það þarf hinsvegar að ganga frá þeim þegar notkun lýkur. Í dag eru fjölmargar malarnámur í sveitarfélaginu, þar af margar sem ekki eru í notkun og standa enn opnar og eru lýti í landslaginu. Heiman frá mér sjást 6 námur, er það eðlilegt? Við erum með malarnámu við skólalóð Þelamerkurskóla, er það eðlilegt? Kannski bara í Hörgársveit?
Það verður væntanlega ekki snúið aftur hvað Moldhaugnaháls varðar, ásýndin á bara eftir að versna enda svæðið aðeins nýlega tekið í notkun. Skaðinn er skeður og mun þessi hryllingur líklega standa sem minnisvarði um slæm vinnubrögð um ókomna tíð. En það sem ég vil með þessu bréfi er að vekja sveitarstjórn og íbúa til umhugsunar svo að slíkt gerist ekki aftur og leita leiða til að snúa af þessari braut, meðal annars með því að herða eftirlit með malarvinnslusvæðum og sjá til að settum reglum um leyfilegan fjölda vinnutækja og ásýnd svæðis sé framfylgt.
Ég hvet alla eindregið til að kynna sér umgengni Skútabergs við Krossanes og á nýju námusvæði á Moldhaugahálsi.
Hjörvar Kristjánsson, Ósi