Sjö marka tap hjá Akureyri gegn Gróttu

Akureyri tapaði í dag fyrir Gróttu með 7 marka mun, 18-25, í KA-heimilinu í DHL-deild kvenna í handbolta.

Lengi leiks hékk Akureyri í Gróttustúlkum en síðustu mínúturnar gáfu þær eftir og Grótta vann að lokum frekar stóran sigur miðað við gang leiksins.

Akureyrar stelpur byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti og spiluðu virkilega sterka vörn sem þær fylgdu eftir með fínum og hreyfanlegum sóknarleik. Eftir 20 mínútur var staðan 10-5 fyrir Akureyri og allt í góðum málum.

Grótta hafði hins vegar þegar þarna var komið sögu ekki notað lykilmenn sína í leiknum og á þessum tímapunkti fóru þeir að tínast inn á völlinn í stað minni spámanna. Enda nartaði Grótta svo um munaði í forskot Akureyrar síðustu 10 mínútur hálfleiksins og Akureyri skoraði einungis eitt mark gegn 5 á þessum tíma. Staðan í hálfleik 11-10.

Lilja Þórisdóttir fór á kostum í fyrri hálfleik í sókninni og skoraði mörg glæsileg mörk en heilt yfir spilaði liðið vel í vörn og sókn.

Flestir áttu eflaust von á því að Grótta myndi valta yfir Akureyri í seinni hálfleik en lengi vel var langt því frá að svoleiðis væri uppi á teningnum. Grótta hafði þriggja marka forystu þegar seinni hálfleikur var hálfnaður og þegar 5 mínútur voru til leiksloka var munurinn fjögur mörk, í stöðunni 18-22.

Akureyri skoraði hins vegar ekki mark síðustu 5 mínútur leiksins en Grótta gerði þrjú og því var óþarflega stórt 7 marka tap staðreynd.

Í seinni hálfleiknum áttu þær Anna Teresa Morales og Monika góða spretti sóknarlega en heilt yfir átti Akureyri í töluverðum vandræðum með að finna glufur á vörn Gróttu. Vörn og markvarsla hjá liðinu var hins vegar í fínu lagi.

Nýjast