07. apríl, 2008 - 14:06
Fréttir
Sigurlína Osuala, leirlistakona, hefur verðið ráðin framkvæmdastjóri hátíðarinnar; „Uppskera og handverk" sem haldin er á hverju
sumri í Eyjafjarðarsveit. Sigurlína er 35 ára gömul og lauk MA námi í leirlist frá Lista- og hönnunarskólanum í Helsinki
(University of Art og Design) árið 1999. Hún hefur starfað við hönnun og kennslu hjá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum samhliða
því að reka eigin vinnustofu í Helsinki. Sigurlína kemur til landsins í byrjun maí og mun þá strax taka til starfa við undirbúning
og skipulagningu hátíðarinnar, sem haldin verður í og við Hrafnagilsskóla dagana 8. - 10. ágúst n.k.
Undanfarin tvö ár hefur Dóróthea Jónsdóttir verið framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Hún hefur á þessum
árum skipulagt fjölbreytt námskeiðshald í handverki og hún heldur úti vefsíðunni
http://www.listalind.is/. Hún er virkur þátttakandi í „Gásahópnum" og hefur beitt sér fyrir markvissu samstarfi
ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi. Nú undirbýr Dóróthea opnun fjölnotahúss á Akureyri undir heitinu „Marína
á Akureyri." Yfir sumartímann mun starfsemin að mestu snúa að þjónustu við farþega skemmtiferðaskipa sem viðdvöl eiga á
Akureyri m. a. með sölu á þjóðlegum minjagripum frá handverksfólki um allt land.