Sigurður Kristinsson ráðinn deildarforseti nýrrar deildar við HA

Ný deild verður stofnuð við Háskólann á Akureyri 1. ágúst nk. þegar kennaradeild og félagsvísinda- og lagadeild verða sameinaðar í eina deild undir nafninu hug- og félagsvísindadeild. Sigurður Kristinsson sem starfað hefur við kennslu í HA frá árinu 2000 hefur verið ráðinn deildarforseti nýju deildarinnar.

Sigurður var áður deildarstjóri félagsvísinda- og lagadeildar en alls sóttu níu manns um stöðuna. Markmiðið með sameiningunni segir Sigurður vera að styrkja núverandi námsframboð í þessum deildum og auka nýtt framboð á bæði grunn- og framhaldsstigum. Einnig mun þetta greiða fyrir lengingu kennaranáms í 5 ár sem er fyrirsjáanleg breyting. „Við sjáum fagleg sóknarfæri í þessu, þetta eru allt saman félagsvísindi og kúrsar sem geta styrkt hver aðra og við sjáum tækifæri á að geta nýtt betur það sem við erum að kenna," segir Sigurður. Hann segir að það sem gerist við sameininguna sé að það fer af stað námsskráð vinna sem er þvert á báðar gömlu deildinnar. „Það er hægt að ná hagræðingu með því að slá þessum deildum saman og þá er hægt nýta þessa hagræðingu til að bjóða upp á betri kúrsa um leið."

Með sameiningunni breytist ekkert til skemmri tíma en til lengri tíma litið þá ætti námið við Háskólann að bætast auk þess sem val myndi aukast. „Það er hægt að bætu ýmsu kryddi í þetta," segir Sigurður. Hann segir hugmyndina einnig þá að þessir tveir hópar, kennaradeild og félagsvísinda-og lagadeild, muni eflast við að vinna meira saman. Kennsla í kennaradeildinni hefur farið fram í Háskólasetrinu við Þingvallarstræti undanfarin ár en árið 2010 er áætlað að færa þá deild upp á Sólborg og hafa þar allar deildir á sama stað. Sigurður segir að óneitanlega hefði verið gaman að geta komið með deildina upp á Sólborg næsta haust þegar sameiningin á sér stað. „Það hefði auðvitað verið skemmtilegast ef þetta hefði fallið á sama tíma, en það gerir það því miður ekki þannig að fyrst í stað verður deildin á tveimur stöðum."

Núna liggur fyrir að samþykkja reglur fyrir nýju deildina og koma námsþróunarvinnunni í farveg. Það eru tvenns konar lög sem þarf að taka mið af, sem eru frumvörp núna fyrir Alþingi. Annars vegar er það lenging kennaranáms í fimm ár og hins vegar frumvarp um opinberun Háskóla og að þetta verði að einum lagaramma og það er eitt sem nýja deildin þarf að aðlaga sig að. Í nýju deildinni verða þrjár skorir, lagaskor, kennaraskor og félagsvísindaskor, svo er stefnt að því að fjórða skorin komi innan tíðar sem er hugvísindaskor. Sigurður segir að menn innan Háskólans vonist til að með þessari breytingu verði námið öflugra og enn meira spennandi. „Við sjáum spennandi möguleika í stöðunni og hlökkum mikið til þessa tækifæris. Þetta kemur klárlega til með að styrkja skólann ennfremur og við erum full af bjartsýni," segir Sigurður að lokum.

Nýjast