Samrunaviðræður í gangi

Í dag fóru formenn Einingar-Iðju, Félags byggingamanna Eyjafirði, Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni og Sjómannafélags Eyjafjarðar ásamt varaformanni Einingar-Iðju, til fundar við fulltrúa Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði vegna frumviðræðna um samruna. Hugmyndin sem á að skoða er að félagar í Vöku gangi til liðs við framantalin stéttarfélög á Akureyri. Málið fer nú til frekari umfjöllunar í stéttarfélögunum, m.a. var kosið í undirbúningsnefnd sem mun skoða málið enn frekar á næstunni og var ákveðið að hittast aftur áður en langt um líður. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir á vef félagsins að fulltrúar félaganna frá Akureyri hefðu hitt fulltrúa frá Vöku og farið yfir stöðuna. "Það var góður gangur í þessu og á fundinum var m.a. kosið í undirbúningsnefnd sem í eiga sæti, ég, Úlfhildur formaður FVSA, og Signý formaður Vöku. Nefndin hefur þegar tekið til starfa og munum við á næstunni fara yfir alla fleti málsins áður en formennirnir hittast á ný til nánari viðræðna."

Nýjast