Samið við iðnaðarmenn

Unnið er að því að ganga frá samningum við iðnaðarmenn vegna innanhússframkvæmda við Menningarhúsið Hof á Akureyri. „Þetta gengur ágætlega, við erum komnir með samninga vegna ákveðinna verkþátta og á öðrum sviðum er þetta á vinnslustigi," segir Magnús Garðarsson, eftirlitsmaður með byggingu hússins. Magnús segir að samið hafi verið við Magnús Gíslason sem mun sjá um múrverk. Þröstur Guðjónsson mun sjá um málningarvinnu, Haraldur Helgason um pípulagnir og Rafmenn um rafmagnsmálin. Varðandi trésmíðavinnuna segir Magnús að henni hafi verið skipt upp og búið sé að semja við Völvustein um gipsveggi. Við erum að skoða hurðamálin en yfir 200 hurðir verða í húsinu, þá erum við að skoða innréttingarnar en það eru komin tilboð í loftin. Þetta er svona að mjakast," sagði Magnús. Hann segir að í þeim samningum sem gerðir hafa verið hafi verið farið nær kostnaðaráætlunum en þeim tilboðum sem bárust á sínum tíma. „Ég held að við getum þokkalega vel við unað því það er ekki hlaupið að því að fá iðnaðarmenn til starfa um þessar mundir," sagði Magnús.

Nýjast