12. febrúar, 2008 - 11:08
Fréttir
Samherji hf. hefur veitt 14 starfsmönnum sínum sérstök hvatningarverðlaun fyrir fullkomna mætingu til vinnu á árinu 2007. Starfsmennirnir fengu hver um
sig ferðaávísun að upphæð 100 þúsund krónur. Afhending hvatningarverðlaunanna markar lok fyrsta starfsársins í gagngerri
heilsueflingu innan fyrirtækisins. Það er yfirlýst stefna Samherja að stuðla að bættri heilsu og vellíðan starfsmanna sinna. Á liðnu
ári hóf fyrirtækið átak í því skyni að hvetja starfsmenn sína til markvissrar heilsueflingar á öllum sviðum.
Átakið var kynnt öllum starfsmönnum Samherja í ársbyrjun og þeir hvattir til að taka virkan þátt í því, segir á
vef félagsins. Einn liður í átakinu er að greiða niður kostnað við líkamsrækt og ýmsa íþróttaiðkun
starfsmanna. Í öðru lagi var gerður samningur við Heilsuverndarstöðina ehf. um að fyrirtækið veitti starfsmönnum Samherja persónulega
ráðgjöf í málum er snúa að heilsu og bættri líðan, þeim að kostnaðarlausu. Ennfremur voru reglur um veitingu fyrrnefndra
hvatningarverðlauna kynntar. Þess má jafnframt geta að á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að úrbótum á
vinnuaðstöðu starfsmanna í öllum starfsstöðvum Samherja, í samráði við vinnueftirlit og aðkeypta ráðgjafa, með það
að markmiði að starfsmannaaðstaðan yrði eins og best gerist.
Þessi nýbreytni hefur mælst mjög vel fyrir á meðal starfsmanna Samherja. Því verður haldið áfram á braut heilsueflingar á
yfirstandandi ári og hvatningarverðlaunin veitt öðru sinni í febrúar 2009.
Eftirtaldir starfsmenn hlutu hvatningarverðlaun Samherja fyrir árið 2007:
Jóhannes Már Jóhannesson - Björgúlfur EA-312
Valur Höskuldsson - Björgvin EA-311
Gunnar Eiríksson - Hausaþurrkun
Atli Dagsson - Dalvík
Phanthong Saraphat - Dalvík
Sigrún Aðalsteinsdóttir - Dalvík
Samúel Björnsson - Margrét EA-710
Kristinn Helgason - Íslandsbleikja
Ólafur T Hermannsson - Oddeyrin EA-210
Ingvi Eiríksson - Strýta
Sigurður Pálsson - Vilhelm Þorsteinsson EA-11
Hanna Dóra Hermannsdóttir - skrifstofa
Sigurður Gunnarsson - Víðir EA-910
Illugi Pálsson - Þorvarður Lárusson SH-129