SA Íslandsmeistari - eða hvað?

SA vann SR í fjórða leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí, leikurinn fór fram í Skautahöllinni í Reykjavík.

SR byrjaði leikinn betur og komst í 1-0 en SA svaraði af krafti og skoraði þrjú mörk áður en fyrstu lotu lauk. Í annari lotu byrjaði SA á að bæta við sínu fjórða marki í leiknum en SR náði að minnka muninn í 4-2. Þá hins vegar spýttu Akureyringar aftur í og settu tvö mörk til viðbótar áður en lotunni lauk og staðan því orðin 6-2.

Í þriðju lotu hreinlega rigndi mörkunum enda þurfti SR að taka áhættu til að komast inn í leikinn. SA skoraði fyrsta mark lotunnar en SR náði að skora tvö mörk fljótlega eftir það og staðan 7-4 þegar um 10 mínútur voru til leiksloka. Örlítil vonarglæta fyrir SR. SA hins vegar slökkti hana fljótlega með tveimur mörkum áður en SR skoraði síðasta mark undir lok leiksins og lokatölur því 9-5 SA í vil.

Hvort lið hefur því unnið tvo leiki í viðureigninni en SA er samt sem áður væntanlega orðið Íslandsmeistari þar sem að þeim hefur verið dæmur sigur í fyrsta leik liðanna sem SR vann. Dómstóll ÍSÍ úrskurðaði á föstudag að SR hefði notað ólöglegan leikmann í fyrsta leik liðanna. Þetta þýðir að SA hefur þrjá sigra í einvíginu en SR einn og þar með er SA eins og áður sagði Íslandsmeistari ef ekkert breytist.

Að sögn heimildamanna Vikudags ætlar Íshokkísamband Íslands þó að bíða með að útnefna SA Íslandsmeistara þar sem SR-ingar geta enn áfrýjað dómi ÍSÍ og því getur liðið meira en vika þar til niðurstaða fæst í málið.

Nánar verður sagt frá leiknum í Vikudegi nk. fimmtudag

Nýjast