SA er Íslandsmeistari í íshokkí karla árið 2008 eftir að áfrýjunardómstóll ÍSÍ staðfesti úrskurð dómstóls ÍSÍ um að leikmaður SR, Emil Alengaard, hafi verið ólöglegur í fyrsta leik SA og SR um Íslandsmeistaratitilinn í mars síðastliðnum.
SR sigraði í leiknum sem Emil lék í en þar sem hann var ólöglegur var úrslitum leiksins breytt og þau skráð 10-0 SA í vil. Hvort lið vann tvo leiki í viðureigninni en þar sem úrslitum fyrsta leiksins var breytt, þá vann SA einvígið 3-1.
Í gær, fimmtudag, hélt meistaraflokkur SA svo sína lokaæfingu í vetur og var sú æfing ekki beint venjuleg því í lok hennar fengu þeir afhentan sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.