Róttæk landbúnaðarstefna

Björgvin E. Vídalín, oddviti Frjálslynda Lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi
Björgvin E. Vídalín, oddviti Frjálslynda Lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Landbúnaðarstefna Frjálslynda Lýðræðisflokksins er róttæk en er einnig  mjög góð byggðastefna.

Stefna okkar gengur út á að styrkir til landbúnaðar fari á lögbýli en ekki afurð.

 Það gefur ábúanda frelsi til að vinna að  þeirri framleiðslu sem hentar best hverjum ábúanda sem og hentar best á þeirri jörð sem búið er á. 

Þetta þýðir t.d. að ekkert kvótabrask verður til staðar og frelsi til athafna eykst til muna.  Til að lifa af landinu þarf ekki endilega að fjölga skepnum, heldur að auka verðmæti afurðar þeirri sem býlið gefur af sér.

Það gerir einnig ungu fólki auðveldra  með að setjast að um landið allt.

Samhliða þessu verður að einfalda það regluverk sem við búum við til að greiða fyrir því að bændur geti  fullunnið sýnar afurðir. 

 Því það gengur ekki lengur að afkoma bænda standi og falli með afurðaverði því sem afurðastöðvar skammta.

 Bóndinn getur hins vegar auðvitað ákveðið að leggja inn sína afurð hjá afurðastöðum ef vilji er til þess. En með því að setja styrkinn á býlið er það bóndinn sem ræður hvort hann er með sauðfé, kýr, fiskeldi, garðyrkju, ylrækt, svínabú, eggjabú eða einfaldlega  hvað eina sem hugurinn ber viðkomandi.

Slík stefna er einnig góð stefna í nýsköpun hvers konar því mikil tækifæri eru á landinu í t.d. matartengdri ferðaþjónustu sem og upplifunar ferðaþjónustu. 

Okkar útfærsla á þessu gerir ráð fyrir, að til að fá slíkan styrk þarf í það minnsta að skila sem svarar einu ársverki og ef þau eru fleiri ársverkin þá sé gulrót á endanum í formi auka styrks.  Við verðum nefnilega að fá landið allt í byggð og nýtingu, það er besta umhverfisstefnan að yrkja landið.

Okkar stefna gengur líka út á að ef þú átt jörð, þá skaltu eiga þar lögheimili og greiða þína skatta og skyldur til þess samfélags og hugsa um jörðina.

Það nefnilega gengur ekki lengur að svokallaðir fjárfestar hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir geti safnað jörðum eins og servíettum. Það einfaldlega verður að stoppa. 

Við teljum hefðbundin fjölskyldubú vera þá stærð sem passar best í okkar landi og okkar ímynd og um leið umhverfisvænast.  Slíkir styrkir munu EKKI verða veittir til fyrirtækja sem reka svokölluð verksmiðjubú. 

Okkar stefna er til þess fallinn að efla byggðir sem og að koma þeim jörðum sem nú standa og grotna niður í byggð að nýju og þar með eflir það menningu og samfélag hvers svæðis sem nú stendur víða höllum fæti.

Bændur stunda margir hverjir mjög orkufreka framleiðslu og þeir verða að fá rafmagnið á eðlilegum kjörum og virkja verður svokallaða stóriðju taxta þeim til handa. 

Við viljum banna innflutning á fersku kjöti. Fæðuöryggi landsmanna á að vera heilnæm íslensk framleiðsla hvaða nafni sem hún nefnist.

Við teljum að ekkert væri mikilvægara fyrir unga og nýja bændur en að landbúnaðarstefna Frjálslynda lýðræðisflokksins yrði að veruleika. 

Björgvin E. Vídalín, oddviti Frjálslynda Lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi


Athugasemdir

Nýjast