03. september, 2007 - 16:56
Fréttir
Starfsemi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri fyrstu 6 mánuði ársins hefur aukist miðað við fyrra ár. Sjúklingum hefur fjölgað og göngudeildarstarfsemi fer vaxandi. Rekstrarkostnaður hefur jafnframt aukist meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Gjöld umfram tekjur í júnílok eru tæpar 60 milljónir sem er 3,3% frávik. Áætluð velta sjúkrahússins á árinu er um 4 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður hækki enn hlutfallslega það sem eftir er ársins og að halli í árslok geti numið 160-170 milljónum króna sem er 4,5-5% frávik miðað við fjárlög. Launakostnaður
í lok júní nemur 1.430 milljónum og hefur hækkað um 9,7% miðað við sama tímabil á árinu 2006. Dagvinnulaun hafa hækkað um 7,6% en á sama tímahefur yfirvinna hækkað um 15%. Mikil fjölgun hefur orðið á aukavöktum sem tengist vaxandi vinnuálagi og lakari mönnun. Á tímabilinu hefur launakostnaður farið 21 milljón framúr áætlun eða 1,5%. Launaskrið og áhrif stofnanasamninga munu fyrirsjáanlega leiða til enn frekari launahækkana seinni hluta ársins.
Almenn rekstrargjöld nema samtals 534 milljónum í júnílok og hafa hækkað um 14,8% miðað við fyrra ár. Til samanburðar hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,7%. Stærstu einstöku liðir í hækkunum eru lyfjakostnaður sem nemur 88 milljónum og hefur hækkað um 22% og vörur til lækninga og hjúkrunar sem nema samtals um 93 milljónum og hafa hækkað um 43%. Í heild hafa almenn rekstrargjöld farið tæpar 50 milljónir umfram áætlun eða 10,3%. Sértekjur í lok tímabilsins nema 159 milljónum króna og eru 11 milljónum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Stærstu einstöku liðir í sértekjum eru komugjöld sjúklinga og tekjur af almennum rannsóknum og myndgreiningum. Starfsemi hefur aukist. Sjúklingum hefur fjölgað um 3,4% á milli ára og skurðaðgerðum um 2,8%. Göngudeildarstarfsemi (ferliverk) hefur aukist um 7% en jafnframt hefur legudögum fækkað sem er sama þróun og verið hefur undanfarin ár. Fæðingar fyrstu 6 mánuði ársins voru 216 og er það sami fjöldi og á síðasta ári. Þetta kemur fram á vef FSA.