Óskað eftir aðstoð í Glerárlaug en sjúkrabíll fór að Sundlaug Akureyrar

Þorbjörn Haraldsson slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akureyrar hitti forsvarsmenn Neyðarlínunnar á fundi í gær og fór yfir misbresti sem orðið hafa á útköllum sem komið hafa frá Neyðarlínunni að undanförnu í Glerárlaug.  Þrívegis hefur verið óskað eftir aðstoð sjúkrabíls í Glerárlaug, en boðin misfarist þannig að farið var að Sundlaug Akureyrar.  Við það hefur tapast dýrmætur tími. Síðasta tilvikið var nú um liðna helgi. Tilkynnt var um meðvitundarlausan mann í Akureyrarsundlaug og segir Þorbjörn í samtali við Vikudag, að því hafi verið farið með mesta forgangi að Sundlaug Akureyrar. Í huga bæjarbúa sé Akureyrarsundlaug Sundlaug Akureyrar.  Á leiðinni á staðinn var leitað eftir nánari upplýsingum um ástand mannsins og hvar óskað væri eftir að sjúkrabíll kæmi að lauginni.  Nefnt var að bíllinn ætti að koma inn um hlið að norðanverðu en þar var svo enginn til að taka á móti sjúkraflutningamönnum. Á leiðinni var einnig óskað eftir staðfestingu á að um Akureyrarlaug væri að ræða og fékkst hún.  Síðar var málið leiðrétt og  sagt að um Glerárlaug væri að ræða. Maðurinn hafði að sögn Þorbjarnar braggast, sem betur fer og því kom ekki að sök í þetta sinn að farið væri í ranga sundlaug.  „Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti sem svona gerist og þetta er mjög slæmt, það er einhver brotalöm í gangi hjá Neyðarlínunni, líklega halda menn að einungis sé ein sundlaug á Akureyri.  Við útkall af þessu tagi er hver mínúta dýrmæt," segir Þorbjörn. Hann segir að sú vinnuregla gildi hjá Slökkviliðinu á Akureyri að rýnt sé í hvert útkall, menn fari yfir málið og skoði hvort eitthvað megi betur fari, hvort unnt er að bæta sig, „og ég geri þá kröfu nú til Neyðarlínunnar að þessi mál verði skoðuð, kannað hvað farið hefur úrskeiðis og bætt úr," segir Þorbjörn.

Nýjast