Sparisjóður Norðlendinga hefur afhent öllum börnum og unglingum í hestamannafélaginu Létti á Akureyri öryggisvesti með endurskinsborðum. Með þessu reynir Sparisjóðurinn að tryggja öryggi ungmennanna í myrkrinu. Það er öllum þeim sem ferðast nauðsynlegt að sjást vel í skammdeginu. Þetta á ekki síst við þá sem stunda útreiðar. Ungir hestamenn í Létti komu saman í Skeifunni, félagsheimili hestamanna á Akureyri, í gær en þar fór Guðný Bergvinsdóttir, leiðbeinandi hjá Rauða krossinum, yfir öryggismál og skyndihjálp og benti unga fólkinu á hversu mikilvægt er að nota hjálm og endurskinsmerki. Við það tækifæri afhenti Fjóla Björk Karlsdóttir frá Sparisjóði Norðlendinga hestafólkinu öryggisvestin.
Það var æskulýðsnefnd Léttis sem stóð fyrir fundinum en formaður nefndarinnar er Andrea Þorvaldsdóttir. Öryggismál eru ofarlega á baugi hjá hestamönnum þessa dagana en Landssamband hestamannafélaga ætlaði að fjalla um þau á ráðstefnu á Akureyri síðar í dag en henni varð að fresta vegna slæmrar veðurspár. Stefnt er að því að halda ráðstefnuna síðar í þessum mánuði.