Orkunotkun fyrir allt að sex þúsund heimili á Akureyri

Nýja virkjunin mun geta keyrt sjálfstætt og þannig dregið úr óþægindum á Akureyri ef raforkuflutning…
Nýja virkjunin mun geta keyrt sjálfstætt og þannig dregið úr óþægindum á Akureyri ef raforkuflutningur til bæjarins bregst með öllu.

Fallorka ehf. hefur nú reist 3,3 MW vatnsaflsvirkjun í Glerá ofan Akureyrar en virkjunin var formlega gangsett og vígð á dögunum. Tilgangur hinnar nýju virkjunar í Glerá er að framleiða raforku inn á dreifikerfi Norðurorku hf. Árleg framleiðsla virkjunarinnar er áætluð 22 GWst sem samsvarar orkunotkun um 5 til 6 þúsund heimila á Akureyri eða álíka margra rafbíla.

Framboð á raforku á Akureyri og í Eyjafirði hefur verið takmarkað undanfarin ár enda hefur Landsneti ekki tekist að hrinda í framkvæmd endurbyggingu á flutningslínum til Akureyrar, hvorki frá Blönduvirkjun né frá Kröfluvirkjun og Þeistareykjum. Í minnsblaði vegna opnun vatnsaflsvirkjunarinnar segir að fátt sé um virkjunarkosti á mið-Norðurlandi og þörf sé á að reisa smávirkjanir til að mæta eftir megni vaxandi eftirspurn eftir raforku.

Dregur úr óþægindum ef raforkuflutningur bregst

Virkjunin er búin tæknilega fullkomnum Pelton-hverfli með 6 inntaksstúta frá Andritz í Þýskalandi og mun hún geta keyrt sjálfstætt og þannig dregið úr óþægindum á Akureyri ef raforkuflutningur til bæjarins bregst með öllu eins og gerðist til dæmis í aftakaveðri sem gekk yfir Norðurland í september 2012.

Með hinni nýju virkjun í Glerá starfrækir Fallorka nú fjórar vatnsaflsvirkjanir á Eyjafjarðarsvæðinu. Félagið selur raforku um allt Ísland samkvæmt leyfi frá Orkustofnun. Fallorka hefur undanfarin fjögur ár fengið viðurkenningu Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki. Fallorka er að fullu í eigu Norðurorku sem rekur dreifikerfi fyrir raforku á Akureyri og rekur auk þess hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu á Akureyri og í nokkrum nágrannasveitarfélögum.

Nýjast