Orka og auðlindir í Norðurþingi

Eiður Pétursson
Eiður Pétursson

Eiður Pétursson skrifar

Nýliðinn vetur olli ákveðnum straumhvörfum í umræðunni um orkumál á Íslandi, vatnsstaða í lónum var lág og þurfti að skerða afhendingu á orku til fiskimjölsverksmiðja og stóriðju víða um land.  Á sama tíma eru hafin orkuskipti í samgöngum og því ljóst að okkur er vandi á höndum, meiri orka er nauðsynleg og ekkert svigrúm er til skerðinga.

Á þeim tíma í vetur sem vatn skorti í lónin gegndu jarðvarmavirkjanir í Þingeyjarsýslu mikilvægu hlutverki í raforkukerfi landsins og keyrðu þær á fullum afköstum og sköffuðu landsmönnum birtu og yl. Því hefur umræða um aukna virkjun á jarðvarma í Þingeyjarsýslu farið á flug upp á síðkastið og er gríðarlega mikilvægt upp á áframhaldandi þróun þessara virkjanakosta, að sveitarfélögin hér á svæðinu standi saman og hjálpi til við að greiða götu þessara verkefna svo af þeim megi verða, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Nýtum orkuna í héraði

Eftir mikla og glæsilega uppbyggingu á Bakka sem nú er farin að ganga vel og skila miklum tekjum inn í samfélagið er mikilvægt að Norðurþing stígi myndarlega inn á sviðið og vinni að því að fá raunhæf verkefni inn á Bakka því þar eru innviðir klárir með sterkum rafmagnstengingum frá Þeistareykjum. Einnig er mikilvægt að Norðurþing hafi frumkvæði að því að klára samtalið við Landsnet um endurbyggingu á bæði Húsavíkur- og Kópaskerslínum sem eru orðnar áratuga gamlar og þarfnast endurnýjunar. Slæmt rekstraröryggi Kópaskerslínu í vondum veðrum er alvarlegur hlutur því öruggur rekstur hennar er grundvallar forsenda þess að sú glæsilega atvinnuuppbygging sem nú er í gangi í Kelduhverfi og Öxarfirði varðandi fiskeldi geti haldið áfram að blómstra.

Af vindorku

Talsverð umræða hefur skapast um nýtingu vindorku um allt land og víða hafa fyrirtæki sótt um að fá leyfi til rannsókna og hugsanlegs reksturs vindorkugarða. Mikilvægt er að Norðurþing skapi sér stefnu í þessum málum og sveitarfélagið sé sjálft við stjórnvölinn þegar kemur að skipulagningu landsvæða fyrir vindorkugarða því að mörgu er að hyggja í þeim málum, hefur m.a. komið til tals að skipuleggja landsvæði í eigu Norðurþings norðan og austan Húsavíkurfjalls undir slíkan vindorkugarð. Bent hefur verið á að þarna sé stutt í sterkar rafmagnstengingar, vindasamt, gróður sé rýr og fuglalíf fábrotið.

Sókn í Norðurþingi á næstu árum.

Mikilvægt er að á næstu misserum skipi Norðurþing sér í fremstu röð varðandi sveitarfélög sem bjóða fram aðstöðu fyrir atvinnuuppbyggingu, hér höfum við trausta innviði, sterkar rafmagnstengingar á Bakka. Á Húsavík höfum við öfluga hitaveitu með möguleika á að afhenda allt að 120°C heitt vatn til iðnaðarnota. Svæðið býr einnig yfir vannýttum jarðhitasvæðum og varla þarf að nefna mikla þekkingu á svæðinu og mannauð sem býr í okkar fólki. Framtíðin er björt í Norðurþingi með Framsókn í forystusætinu.

Undirritaður skipar 3. sæti á B lista framsóknar og félagshyggju í Norðurþingi.

Eiður Pétursson


Athugasemdir

Nýjast