„Of mikið af hundleiðinlegum fréttum“

Magnús Hlynur er mikill sundgarpur að eigin sögn.
Magnús Hlynur er mikill sundgarpur að eigin sögn.

Hinn ástsæla fréttamann, Magnús H. Hreiðarsson, þekkja flestir landsmenn fyrir líflegan og skemmtilegan fréttaflutning í sjónvarpinu. Í haust settist hann aftur á skólabekk eftir 20 ára fjarveru og hóf nám í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Magnús Hlynur er 45 ára Suðurnesjamaður, fæddur í Keflavík og uppalinn í Vogunum. Í spjalli við Vikudag ber hann æskuslóðunum söguna vel og segir að þar hafi verið gott að alast upp.

Eftir stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja skráði Magnús sig í Bændaskólann á Hvanneyri og nam búfræði. Því næst fluttist hann búferlum á Selfoss og þar kviknaði mikill áhugi á garðyrkju sökum þess hversu gróðursæll staðurinn er. Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi var því næsti áfangastaður. Þá bauðst honum staða við skólann að námi loknu og starfaði hann sem endurmenntunarstjóri og verkefnisstjóri Grænni skóga í tíu ár, auk þess að kenna þar félagsmál.

Náði ekki í konu með kvóta

En hvernig kom það til að menntaður bú- og garðyrkjufræðingur fór að starfa fyrir fjölmiðla? Aðspurður segist Magnús upprunalega alltaf hafa átt þann draum að verða bóndi þar sem hann var í sveit átta sumur í röð frá 10 ára aldri. Hann elskaði að mjólka kýr og fara á hestbak. Hinsvegar náði hann sér ekki í konu með kvóta og átti því ekki möguleika á að gerast bóndi. Þegar Magnús flutti á Selfoss og tók að vinna fyrir Græna skóga bauðst honum starf hjá héraðsfréttablaðinu Dagskránni og hóf hann störf sem blaðamaður í lausamennsku samhliða verkefnastjórastöðunni. Í framhaldinu af því bauðst honum starf hjá RÚV sem fréttaritari á Suðurlandi. Í dag starfar Magnús hjá 365 miðlum og flytur landsmönnum fréttir af Suðurlandi.

Skemmtilegar fréttir

Fréttir Magnúsar þykja skemmtilegar og koma landsmönnum í gott skap en hverjar ætli hafi verið í uppáhaldi hjá manninum á bak við fréttirnar? „Já, nú síðast, var ég með skemmtilega frétt á Stöð 2 en hún sagði meðal annars frá bónda á Norðurlandi, sem lést í haust. Eitt af síðustu verkum hans var að biðja ættingja sína að setja eitt eintak af Hrútaskránni í líkkistuna svo hann hefði nú eitthvað að lesa þarna uppi. Eldri fréttir sem sitja í minningunni hjá Magnúsi segja frá hænum sem voru gráðugar í pizzur, syngjandi hundi sem elskaði Kristján Jóhannsson og söng einungis með honum og presti sem fór út að ganga fimm kílómetra í nokkrar vikur daglega með heimalinginn sinn. Svona gæti hann haldið áfram að þylja upp fréttirnar sem hann hefur dálæti á eða eins og Magnús segir sjálfur „ég gæti haldið áfram lengi, lengi með skemmtilegar fréttir“.

„Of mikið af hundleiðinlegum fréttum“

Því verður ekki neitað að fréttirnar eru hressandi og líflegar en hvaðan ætli hugmyndirnar komi. Magnús segist vera frjór í hugsun og alltaf með eyrun og augun opin fyrir því skemmtilega sem er að gerast í umhverfinu. Þá er fólk líka duglegt að gauka til hans hinum og þessum málum sem þykja skemmtileg. En samkvæmt Magnúsi er „alltof mikið af hundleiðinlegum fréttum í gangi sem enginn nennir að hlusta á og enginn man eftir. Ég reyni að vera með fréttirnar sem fólk man eftir og talar um eftir fréttatímann.  Það er mitt mottó“.

Gamall draumur

Magnús er án efa þekktastur sem frétta- og blaðamaður en fáir vita að hann er einnig námsmaður við Háskólann á Akureyri. En hvað fékk fjölmiðlamanninn til að setjast aftur á skólabekk og af hverju varð fjölmiðlafræðin fyrir valinu? „Ég sá auglýsingu frá skólanum í sumar um námið og hugsaði strax, YES!, þetta er eitthvað fyrir mig. Nú læt ég gamla drauminn rætast og skelli mér í háskólanám“. Magnús segist hafa kviðið mikið fyrir því að fara aftur í nám enda 20 ár síðan hann var síðast í skóla. Þrátt fyrir það hafi hann látið slag standa og skráð sig í fjarnám.Fjölmiðlafræðin fannst honum eiga vel við því, þá gæti hann nýtt reynslu sína í náminu sem fjölmiðamaður síðastliðin 25 ár.

Aldrei of seint að læra  

En er eitthvað hægt að kenna manni sem er með svona mikla reynslu á bakinu. Magnús hélt nú það og telur að hann eigi heilan helling eftir að læra ennþá í faginu og að bæði kennarar og samnemendur geti fært honum nýja þekkingu. Þá vonast hann til þess að geta miðlað eigin reynslu áfram inn í skólann en hann segist luma á ýmsum trixum í bókinni. Skólann er hann alsæll með, þar sé að finna mikinn metnað og frábært starfsfólk. Engin leiðindi né vesen og allir jákvæðir og af vilja gerðir til að rétta hjálparhönd. Þetta er skóli sem er honum að skapi. Magnús bendir einnig á að aldrei sé of seint að læra eitthvað ef áhuginn er fyrir hendi.

Skipulagður þrátt fyrir stress

Námið segir Magnús ekki enn byrjað að gagnast sér í starfinu sökum þess hversu stutt hann hefur verið í því, en hann er viss um að það eigi eftir að nýtast honum vel þegar lengra líður á. Aðspurður segist Magnús vissulega upplifa auka álag eftir að hafa byrjað í náminu, „það er auðvitað smá stress en ég reyni að vera skipulagður. Ég vinn sem verktaki hjá 365 miðlum þannig að ég þarf ekki að mæta á vaktir eða neitt slíkt, ég vinn fréttirnar mínar bara frá Selfossi“. Magnús hefur í nógu að snúast og áhugasviðin liggja víða. Samhliða námi og vinnu er hann á fullu í félagsstarfi á Selfossi og syngur með Karlakórnum þar á bæ, svo er hann líka meðlimur ljósmynda- og rótaríklúbbs svo fátt sé nefnt.  

Jólin skemmtilegur tími

Í tilefni hátíðar ljóss og friðar segist Magnús í gegnum tíðina hafa verið með sérstakar jólafréttir eins og um kirkjusókn á Suðurlandi, þegar kveikt er á jólatrjám í bæjarfélögum og þegar bændur skreyta fjárhúsin eða fjósin sín. „Ég held að fólk vilji "auðmjúkar" fréttir um jólin, eitthvað sem gefur sálinni frið en fær fólk líka til að brosa út í annað“ segir Magnús. Þá finnst honum jólin vera afar skemmtilegur tími og upplifir jólagleðina mikið í gegnum börnin sín, eiginkonuna, og nýjustu viðbótina í fjölskylduna, barnabarnið. Í sambandi við jólahald þá segir Magnús ákveðna hluti orðna að venjum á sínu heimili. Á aðfangadagskvöld er ávallt hamborgarahryggur og að máltíð lokinni setjast allir niður og taka upp pakkana. Í framhaldinu er lesið jólakortin og svo liggur leiðin til tengdaforeldranna í kaffi og jólabúðing. Milli jóla og nýárs taka við jólaboðin. „Þetta er alltaf jafn skemmtilegt og yndislegt“ segir Magnús.

-Viðtalið birtist í Jólablaði Vikudags

Nýjast