Sundfélagið Óðinn frá Akureyri gerði fína ferð á Akranesleikana í sundi sem fram fór um helgina. Óðinn stóð uppi sem stigahæsta félag mótsins auk þess sem Elín Erla Káradóttir var stigahæsti sundmaðurinn. Mótið hefur verið haldið um árabil og er þetta í fyrsta skiptið sem Óðinn sigrar. Mótið var haldið fyrir sundfólk á aldrinum 9- 14 ára og stóðu krakkarnir sig geysilega vel.
Júlía Rún Rósbergsdóttir vann allar sínar greinar í flokki 11- 12 ára stúlkna eða sjö talsins. Elín Erla Káradóttir vann til átta gullverðlauna í flokki 13- 14 ára stúlkna auk stigabikarsins og Freysteinn Viðar Viðarsson vann sex gullverðlaun í flokki 13- 14 ára drengja og setti einnig Akureyrarmet í 1500 m skriðsundi. Aðrir sem unnu til gullverðlauna fyrir Óðinn voru Oddur Viðar Malmquist sem vann til þriggja verðlauna, Þorsteinn Stefánsson hlaut tvenn, og þær Karen Konráðsdóttir og Arna Björg Jónasardóttir fengu sitthvort gullið auk gullverðlaunahafa í boðsundi.
Eitt helsta markmið sundfólksins á mótinu var að ná lágmarki inn á Aldursflokkameistaramót Íslands sem fram fer í Reykjanesbæ í næstu viku. Þó nokkur A.M.Í lágmörk náðust um helgina og ljóst að Óðinn mun senda 30 manna lið á mótið, fleiri en nokkru sinni fyrr.