29. desember, 2007 - 17:00
Fréttir
Óðinn Ásgeirsson körfuknattleiksmaður er Íþróttamaður Þórs árið 2007 en kjörinu var lýst á opnu húsi í Hamri fyrr í dag. Óðinn er vel að þessum titili kominn en hann hefur verið einn besti körfuknattleiksmaður landsins um árabil og ávallt verið í fararbroddi Þórsliðsins jafnt utan sem innan vallar. Í kjölfar erfiðra meiðsla hefur Óðinn sýnt óhemju dugnað og þrautseigju í sinni endurhæfingu, náð sínum fyrri styrk og er á meðal bestu íslensku leikmannanna í úrvalsdeildinni. Óðinn var jafnframt kjörinn körfuknattleiksmaður ársins hjá Þór. Dragana Stojanovic var kjörin knattspyrnumaður ársins en hún hefur verið einn af máttarstólpum kvennaliðs Þórs/KA. Þá var Björn Heiðar Rúnarsson kjörinn Tae-kvon-do maður ársins.