Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við nýtt húsnæði undir aflþynnuverksmiðju í Krossanesi hefjist í lok þessa mánaðar. „Það er allt í fullum gangi og samkvæmt áætlun,” segir Magnús Þór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, sem var á Ítalíu í liðnum mánuði en það er þarlent félag, Becromal, sem reisir aflþynnuverksmiðjuna.
Magnús Þór segir að arkitektar muni skila hönnun hins nýja húss um miðjan þennan mánuð og í framhaldi af því verði hafist handa við að reisa húsið. „Þetta verður töluvert mikil bygging, en að auki verður hluti þeirra húsa sem fyrir eru í Krossanesi nýttur undir starfsemina. Þeim verður þó breytt að einhverju leyti, m.a. hvað útlit varðar og þá verða þau lækkuð til samræmis við nýju bygginguna.” Nýja verksmiðjuhúsið verður á bilinu 5000-6000 fermetrar að stærð.
Magnús Þór segir ekki tæknilega flókið mál að byggja nýja húsið og það ætti ekki að taka langan tíma, en áætlanir gera ráð fyrir að í vor verði vélar settar niður í húsið og til þess verks muni koma Ítalir. „Við gerum svo ráð fyrir að framleiðsla fyrstu eininganna hefjist í sumar, eða í maí til júní, og til að byrja með verða ráðnir 20 til 30 starfsmenn að verksmiðjunni, en starfsemin fer svo stigvaxandi eftir því sem á líður og við vonum að reksturinn verði kominn í fullan gang eftir um það bil ár og starfsemenn verði þá um 90 talsins,” segir Magnús Þór.
Becromal er ítalskt fjölskyldufyrirtæki sem framleiðir aflþynnur í rafþétta. Félagið hefur um 16% markaðshlutdeild í þynnum fyrir rafþétta og starfrækir verksmiðjur á Ítalíu, í Bandaríkjunum og í Noregi. Vaxandi eftirspurn er í heiminum eftir rafþéttum sem notaðir eru í margvísleg tæki.