22. janúar, 2008 - 19:50
Fréttir
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Helena Karlsdóttir, formaður stjórnar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar,
undirrituðu nýjan Vaxtarsamning Eyjafjarðar nýlega sem gildir til ársloka 2010. Á samningstímanum er varið 90 milljónum króna í
þeim tilgangi að efla nýsköpun atvinnulífsins á Eyjafjarðarsvæðinu og auka hagvöxt með samstarfi fyrirtækja, háskóla,
sveitarfélaga og ríkisins. Formlegt starf í nýjum vaxtarsamningi hófst með undirrituninni og mun AFE auglýsa fyrstu verkefnaúthlutun fyrir lok
janúarmánaðar.
AFE stýrir framkvæmd Vaxtarsamnings Eyjafjarðar og er gert ráð fyrir einu stöðugildi hjá félaginu vegna samningsins. Verkefnaval mun byggja á
áðurnefndum markmiðum samningsins og fyrsta skilyrði er að í verkefni sé um ræða samstarf tveggja eða fleiri aðila og skal minnst helmingur
þátttakenda vera fyrirtæki. Þá verður lögð áhersla á verkefni sem efla tengsl háskóla og atvinnulífs, sem og verkefni
sem miða að markaðssetningu og útrás. Við val á verkefnum verður við það miðað að þau efli nýsköpun á
Eyjafjarðarsvæðinu og stuðli að vexti svæðisins. Þau verkefni sem uppfylla öll framangreind viðmið munu njóta forgangs. Verkefni sem
hljóta munu samþykki hjá Vaxtarsamningi Eyjafjarðar fá allt að 50% heildarkostnaðar við þau, gegn mótframlagi annarra þátttakenda.
„Aukið samstarf í atvinnulífinu hér á svæðinu á undanförnum árum, m.a. vegna fyrri samnings, hefur leitt af sér mörg
jákvæð verkefni. Grunnurinn til að byggja á næstu þrjú ár er því góður, bæði fyrir vöxt og
áframhald þeirra verkefna sem til hafa orðið, en ekki síður fyrir ný verkefni. Að mati Atvinnþróunarfélags Eyjafjarðar er
mikilvægt að Vaxtarsamningur Eyjafjarðar er opinn fyrir allar greinar atvinnulífsins á svæðinu, að uppfylltum þeim reglum um gilda um
þátttöku í verkefnum. Því hafa allir jafna möguleika að þessu fjármagni og vonandi sjáum við mikinn fjölbreytileika
í verkefnum, því hann er einmitt sá grunntónn sem við leggjum í öllu okkar atvinnuþróunarstarfi," segir Magnús Ásgeirsson,
framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.