28. janúar, 2008 - 14:46
Fréttir
Stjórn Leikfélags Akureyrar mun á næstu dögum auglýsa stöðu leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar lausa til umsóknar í
ljósi þess að Magnús Geir Þórðarson, sem gegnt hefur stöðunni síðustu fjögur ár, hefur verið ráðinn til starfa
sem leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur. Það er von stjórnarinnar að breiður hópur fólks sæki um stöðuna enda er
eftir góðu búi að sækjast, en undanfarin ár hafa verið ævintýri líkust í leikhúslífi Akureyinga hvað
aðsókn, afkomu og gæði leiksýninga varðar. Stjórn Leikfélags Akureyrar óskar Magnúsi Geir til hamingju með nýjan starfa og er
stolt af frama hans innan leikhúsgreinarinnar.
Magnús Geir hefur sýnt með störfum sínum á Akureyri að hann er í hópi allra færustu leikhúsmanna landsins; framúrskarandi
fagmaður og einstakur samstarfsmaður, segir í fréttatilkynningu. Stjórn LA óskar honum velfarnaðar í nýju starfi. Magnús Geir tekur
formlega við leikhússtjórastöðu LR í haust en mun fram að því ljúka yfirstandandi leikári á Akureyri jafnhliða
undirbúningi næsta leikárs syðra. Hann verður stjórninni innan handar við val á eftirmanni sínum og mun aðstoða hann við að komast
inn í starfið. Stjórn Leikfélags Akureyrar vinnur eftir skýrri stefnu um markmið atvinnuleikhúss á Akureyri þar sem áhorfandinn hefur
verið settur í öndvegi - og sýningum félagsins ætlað að snerta breiðan áhorfendahóp. Hvergi verður hvikað frá þeirri
stefnu á næstu árum.