Norðlenska styrkir Neistann

Í stað þess að senda jólakort til viðskiptavina styrkir Norðlenska eins og undanfarin ár líknarfélag. Að þessu sinni styrkir Norðlenska Neistann - styrktarfélag hjartveikra barna á Norðurlandi, um eitt hundrað þúsund krónur. Ingvar Már Gíslason, markaðsstjóri Norðlenska, afhenti styrkinn sem tveir fjögurra ára drengir, Aðalbjörn Leifsson og Júlíus Freyr Gunnarsson, veittu viðtöku fyrir hönd Neistans. Að sögn Ingvars Más er þetta fjórða árið í röð sem fyrirtækið hefur þennan háttinn á fyrir jólin.

Norðlenska hefur styrkt félagasamtök á þeim stöðum þar sem fyrirtækið hefur starfsemi. Árið 2005 var styrkurinn afhentur á Húsavík, í fyrra á Höfn í Hornafirði og nú er félag á Akureyri styrkt. „Félag eins og Neistinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna og vinnur afar gott starf. Vonandi munu þessir fjármunir nýtast félaginu vel," segir Ingvar Már Gíslason.

Nýjast