Nonni og Selma í Rósenberg

Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur ætlar að kynna nýjustu bókina sína fyrir fyrstu bekkingum úr Brekkuskóla á Akureyri í Rósenberghúsinu, gamla barnaskólanum, fimmtudaginn 1. nóvember kl. 8:20. Bókin ber heitið Nonni og Selma - fjör í fyrsta bekk og segir frá tveimur krökkum sem búa á Akureyri. Eftir lesturinn verður nemendunum boðin morgunhressing áður en þau snúa aftur í skólann.

Nonni og Selma - Fjör í fyrsta bekk segir frá kátum hóp barna fyrstu mánuðina í skólanum. Í brennidepli eru tveir krakkar sem sjást í fyrsta skipti í skólastofunni en verða brátt perluvinir. Selma er nýflutt til Akureyrar með mömmu sinni en Nonni hefur búið þar alla tíð með foreldrum sínum. Hann er fatlaður, gengur við göngugrind og þarf stundum að notast við hjólastól. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að hann taki sér ýmislegt fjörugt fyrir hendur og leiki sér eins og hinir krakkarnir í bekknum. Sagan er fjörug og skemmtileg og hentar krökkum frá 6-10 ára aldurs. Frumkvæðið að henni kom frá CP-samtökunum á Íslandi, en flestir þeir sem eru hreyfihamlaðir eru með svokallaða CP-fötlun. Það var ósk þeirra að góður rithöfundur tæki sig til og skrifaði bók þar sem fötluð persóna væri í aðalhlutverki án þess þó að bókin fjallaði um fötlunina, en slíka barnabók vantaði alveg á markaðinn. Brynhildur tók beiðni þeirra vel og sendir nú frá sér bók sem hentar öllum krökkum - fötluðum og ófötluðum - og fjölskyldum þeirra! Bókin verður kynnt öllum Akureyringum í Bókvali laugardaginn 3. nóvember en Brynhildur les úr henni þar klukkan 11.

Nýjast